Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Íslenskan ekki að deyja út á næstu árum

Mynd: RÚV / RÚV

Íslenskan ekki að deyja út á næstu árum

13.07.2018 - 09:52

Höfundar

Eiríkur Rögnvaldsson íslenskufræðingur segir ástæðulaust að hafa áhyggjur af því að íslenskt mál sé að deyja út. Nauðsynlegt sé þó að viðhalda málinu og hlúa sérstaklega að börnum. Umfangsmikil rannsókn bendir til þess að strax á fyrsta ári séu börn undir miklum enskum áhrifum.

„Maður heyrir ótal sögur af því að börn séu að leika sér á ensku og nú veit maður ekki hversu útbreitt það er. Við, Sigríður Sigurjónsdóttir prófessor, erum með stóra rannsókn í gangi á stöðu ensku og íslensku í íslensku málsamfélagi þar sem við vonumst til að fá einhverjar niðurstöður um þetta. Það verður mjög spennandi að fá lokaniðurstöður úr því.“ segir Eiríkur í samtali við Morgunvaktina á Rás 1. 

Í rannsókninni er athyglinni sérstaklega beint að stafrænu umhverfi barna. „Áhrifin koma svo mikið þaðan, í gegnum tölvuleiki, í gegnum Youtube og annað slíkt. Það sem er frábrugðið því sem hefur verið áður er að þessi áhrif ná til miklu yngri barna. Þau ná til barna alveg á fyrsta ári, það er eitt af því sem er að koma í ljós hjá okkur í þessari rannsókn er að börn á fyrsta eða öðru ári eru mörg þeirra talsvert mikið í snjallsímum eða tölvum.“ 

Hlúa þurfi sérstaklega að íslenskukunnáttu barna. „Börn eru svo viðkvæm á þessu skeiði. Við erum ekkert í neinu stríði við enskuna, það er gott og gagnlegt og mikilvægt að börn læri enskuna sem best, hún er náttúrlega alþjóðamál hvort sem okkur líkar betur eða verr en það má ekki vera á kostnað íslenskunnar.“ segir Eiríkur. 

Íslenskan ekki að deyja út á næstunni

Eiríkur hefur nýlega látið af störfum sem prófessor í íslensku hjá Háskóla Íslands. Hann segir tímana hafa gjörbreyst. „Þegar ég byrjaði að kenna fyrir þrjátíu og sex eða átta árum þá var umhverfið sem nemendur mínir bjuggu við svo gjörólíkt því sem er núna.“

„Þá var ein útvarpsstöð, ein sjónvarpsstöð, það voru nokkur dagblöð og öll þessi dagblöð voru vandlega prófarkalesin. Það var dauðhreinsað mál í útvarpi og sjónvarpi, allt skrifað fyrir fram og heyrðist í miklu færra fólki. Það voru sárafáir sem skrifuðu texta sem komu fyrir augu almennings. Venjulegt fólk sá aldrei texta sem annað venjulegt fólk hafði skrifað. Núna getur hver sem er skrifað texta sem kemur fyrir augu heimsins, þannig séð. Það sem enginn gat séð fyrir er þessi stafræna bylting og áhrif hennar á málið.“ segir hann. 

Eiríkur segist ekki ætla að slá því föstu að íslenskan sé að deyja út. „Það má alls ekki vera þannig að þetta verði að einhverjum heimsendaspádómi. Það er ekki þannig að íslenskan sé dauðadæmd, íslenskan er ekkert að deyja á næstu árum eða áratugum, að minnsta kosti. Við getum gert heilmikið og þurfum að gera heilmikið til að styrkja hana. Ég segi líka að við eigum engan annan kost en að halda í íslenskuna af því ef við ímyndum okkur þá stöðu að við skiptum yfir í ensku – það tæki marga áratugi og þeir áratugir yrðu mjög sársaukafullir. Við erum ekkert eins góð í ensku og við höldum.“