Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Íslenska streymisveitan Ísflix enn í þróun

02.11.2019 - 12:42
Mynd með færslu
 Mynd: ÍNN - skjáskot
Íslenska streymisveitan Ísflix er enn í þróun, segir Ingvi Hrafn Jónsson, einn stofnenda veitunnar. Stefnt var að því að appið og streymisveitan yrðu tilbúin nú í byrjun nóvember en þróun appsins hefur tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir, segir hann. Búast megi við að sú vinna klárist í mánuðinum.

Má búast við spennandi appi

Það muni skýrast þegar líður á mánuðinn hvenær megi gera ráð fyrir að streymisveitan verði svo tilbúin. Ingvi Hrafn segir að fólk megi búast við spennandi appi, sem verður án áskriftargjalds, sem streymi íslensku efni, sem heilmikið framboð sé af. 

Hann hefur áður greint frá því að Ísflix ætli sér að bjóða upp á fjölbreytta, borgaralega dagskrárgerð. Fyrir utan þáttinn Hrafnaþing, sem er í umsjón Ingva Hrafns, verða í boði matreiðsluþættir, hlaðvörp og heimildaþættir eftir stjórnmálafræðiprófessorinn Hannes Hólmstein Gissurarson. Þá sé ætlunin einnig að hýsa dagskrárgerð víða að úr samfélaginu, og Ingvi Hrafn leggur áherslu á það allir sem eigi síma geti framleitt efni fyrir Ísflix.

Endurspegli nútímann í efnisdreifingu

Ísflix muni endurspegla nútímann í efnisdreifingu. Hugmyndin að veitunni hafi komið til vegna þess að fjöldi áhorfenda Hrafnaþings, sem nú er sýndur á vef Morgunblaðsins, séu í eldri kantinum og kjósi heldur að horfa á þætti í sjónvarpinu, segir hann.

Með tilkomu appsins og nýju streymisveitunnar verði það hægt, líkt og þekkt er með streymisveituna Netflix. Þá verði einnig hægt að horfa í snjalltækjum og öppum fyrir þá sem það kjósa. Með Ísflix verði því „allt fyrir alla.“

 

Katrín Ásmundsdóttir
dagskrárgerðarmaður