Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Íslensk tunga í húfi

Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock

Íslensk tunga í húfi

05.11.2015 - 15:28

Höfundar

Til að íslensk tunga verði gjaldgeng og nái að þróast og styrkjast í stafrænum tölvuheimi þarf aukið fjármagn ef ekki á illa að fara. Þetta segir Eiríkur Rögnvaldsson prófessor í íslenskri málfræði.

Í fjárlögum þessa árs var 15 milljónum króna veitt í málaflokkinn, 30 milljónum verður varið til verkefnisins á næsta ári. Eiríkur segir að það hrökkvi skammt. Hann ræddi framtíð íslenskunnar í tæknibyltum heimi við Óðin Jónsson á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

Kostar pening að gera íslenskuna gjaldgenga

„Það var gerð skýrsla í fyrra sem lagði til að það væru settar á þetta svið um það bil þúsund milljónir króna - einn milljarður -  á næstu tíu árum“ segir Eiríkur. „Ég held að óhætt sé að segja að það sé lágmarkskostnaður sem þarf til þess að gera íslensku almennilega gjaldgenga á þessu sviði. Við gætum borið það saman við áætlanir sem hafa verið gerðar í löndum í kringum okkur. Við höfum sérstaklega litið til Eistlands, sem er lítið málsamfélag. Það er að vísu þrisvar sinnum stærra en það íslenska, en það kostar jafnmikið að gera tungumál gjaldgeng á þessu sviði hvort sem það eru 300 þúsund sem tala það, ein milljón eða 300 milljónir. Það er útilokað að áætla þetta af nokkurri nákvæmni“

Smápeningar miðað við hvað er í húfi

„Þetta eru smápeningar ef menn hugsa hvað er í húfi. Ef við missum eitthvert svið til enskunnar þá er óskaplega erfitt að ná því til baka. Ég hef oft líkt þessu við hnattræna hlýnun. Það gerist ekkert stórkostlega alvarlegt á næsta ári eða eftir fimm ár. En þegar og ef það gerist þá er ekkert hægt að gera í málinu.“