Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Íslensk stuttmynd keppir um Gullpálmann

Mynd með færslu
 Mynd:

Íslensk stuttmynd keppir um Gullpálmann

16.04.2013 - 18:51
Íslensk stuttmynd hefur verið valin til þátttöku í aðalkeppni á kvikmyndahátíðinni í Cannes.

Stuttmyndin Hvalfjörður, í leikstjórn Guðmundar Arnars Guðmundssonar, hefur verið valin til þátttöku í aðalkeppni Cannes kvikmyndahátíðarinnar. Níu myndir voru valdar til keppni úr alls 3500 stuttmyndum frá 132 löndum. Hvalfjörður keppir því um Gullpálmann í ár og þykir þetta mikill heiður fyrir leikstjóra og alla aðstandendur myndarinnar. Guðmundur Arnar er einnig handritshöfundur og annar framleiðenda myndarinnar ásamt Antoni Mána Svanssyni. Meðframleiðendur eru Danirnir Darin Mailand-Mercado og Jacob Oliver Krarup ásamt Rúnari Rúnarssyni og Sagafilm. Með aðalhlutverk fara Ágúst Örn B. Wigum og Einar Jóhann Valsson.

Myndin fjallar um samband tveggja bræðra sem búa á litlum sveitabæ ásamt foreldrum sínum. Áhorfendur fá að skyggnast inn í heim þeirra út frá sjónarhorni yngri bróðurins og fylgja honum í gegnum örlagaríka daga sem marka þáttaskil í lífi bræðranna.

Cannes kvikmyndahátíðin fer fram í dagana 15. – 26. maí. Formaður dómnefndar í aðalkeppni í flokki stuttmynda er nýsjálenski leikstjórinn Jane Campion. Formaður dómnefndar í aðalkeppni í flokki kvikmynda í fullri lengd er bandaríski leikstjórinn Steven Spielberg. 

Þetta er í þriðja sinn sem íslensk stuttmynd er valin til aðalkeppni í flokki stuttmynda á Cannes. Áður hafði stuttmynd Ingu Lísu Middleton, Ævintýri á okkar tímum, keppt um Gullpálmann árið 1993 og stuttmynd Rúnars Rúnarssonar, Smáfuglar, keppti um Gullpálmann árið 2008.