Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íslensk stjórnvöld mótmæla ferðabanninu harðlega

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Íslensk stjórnvöld hafa í morgun komið á framfæri hörðum mótmælum við aðgerðum sem bandarísk stjórnvöld kynntu í gærkvöldi. Þær fela í sér komubann ferðamanna sem dvalið hafa í Schengen-ríkjum og munu geta haft alvarleg áhrif á Íslandi, einkum fyrir ferðaþjónustu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

„Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti í morgun samtal við sendiherra Bandaríkjanna, og í kjölfarið fund með staðgengli hans, til þess að koma mótmælum á framfæri. Ráðherra hefur í þessum samtölum við bandarísk stjórnvöld lagt á það ríka áherslu að Ísland verði undanþegið ákvæðunum í ljósi landfræðilegrar sérstöðu sinnar og víðtækra aðgerða sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til til að hefta útbreiðslu COVID-19 hér á landi,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir ennfremur að Guðlaugur Þór hafi óskað eftir fundi í utanríkismálanefnd við fyrsta tækifæri til að ræða þá stöðu sem upp er komin.

Aflýsa umfangsmikilli æfingu

Þá hefur Guðlaugur Þór tekið ákvörðun um að aflýsa Norðurvíkingi, tvíhliða varnaræfingu Íslands og Bandaríkjanna, sem átti að fara fram á Íslandi 20 .- 26. apríl nk. Þetta er gert í ljósi þeirra aðstæðna sem upp eru komnar, að því er fram kemur í tilkynningunni.

„Um var að ræða umfangsmikla æfingu undir stjórn bandarísku flugherstjórnarinnar í Evrópu með 900 þátttakendum frá Bandaríkjunum og fleiri ríkjum. Auk Bandaríkjanna og Íslands hugðu Belgía, Bretland, Danmörk, Holland, Ítalía, Kanada, Noregur, Þýskaland á þátttöku og fulltrúar Ástralíu og Nýja-Sjálands höfðu ætlað að senda fulltrúa hingað til lands til að fylgjast með æfingunni.“