Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Íslensk stjórnvöld hafa brugðist“

27.02.2018 - 20:00
Mynd: Kveikur / RÚV
Sunnan og norðan Sádi-Arabíu geisa mannskæð stríð. Í Sýrlandi liggja yfir 250 þúsund í valnum og milljónir eru á flótta. Jemen er í rúst og almenningur sveltur.

Samkvæmt vopnasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 2014, er með öllu bannað að vopna bardagasveitir sem brjóta gegn stríðsrétti – eins og í Sýrlandi, og raunar líka í Jemen. En þangað berast samt vopn og nóg af þeim.

Fyrir nokkrum árum tók að bera á austurevrópskum vopnum á þessum slóðum.  Patrick Wilcken, sérfræðingur í vopnamálum og mannréttindum hjá Amnesty International, segir Bandaríkjastjórn hafa beint miklu magni þessara vopna til Sádi-Arabíu og þaðan hafi þeim verið komið skipulega til Sýrlands og Jemen. „Þau ríki sem tekið hafa þátt í þessum flutningum þurfa að velta siðferðilegum og lagalegum hliðum þessa máls fyrir sér mjög alvarlega“, segir Wilcken.

Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur - RÚV
Patrick Wilcken, sérfræðingur í vopnamálum og mannréttindum.

Undirverktakar Saudia

Rannsóknarblaðamannasamtökin OCCRP, BIRN, rannsóknarstofnunin Conflict Armament Research og fleiri hafa rannsakað málið og komist að því að þorri vopnanna er fluttur frá Búlgaríu, Serbíu og Slóvakíu. Þaðan er stór hluti vopnanna fluttur með ríkisflugfélagi Sádi-Arabíu, Saudia. Og með vélum undirverktaka Saudia, íslenska flugfélagsins Air Atlanta.

Rannsóknir Kveiks og samstarfsaðila sýna, að vélar Atlanta hafa á undanförnum árum í það minnsta 25 sinnum farið með frakt frá Búlgaríu, Serbíu og Slóvakíu. Íslenskar flugvélar, með íslenskar áhafnir. Og með heimild frá íslenskum stjórnvöldum.

Kveikur naut aðstoðar OCCRP, BIRN og Stefans Anguelov hjá stofnun um upplýsingafrelsi í Búlgaríu. Með þeirra aðstoð, svörum frá flugmálayfirvöldum í Slóvakíu og með því að þræða opin gögn á netinu voru ferðirnar frá Sádi-Arabíu til Búlgaríu, Slóvakíu og Serbíu raktar.

Verða að sækja um heimild stjórnvalda

Samkvæmt íslenskum loftferðalögum verða íslensk flugfélög að sækja um heimild til yfirvalda til vopnaflutninga. Atlanta þurfti því að sækja um heimild til Samgöngustofu, og þangað sneri Kveikur sér í september síðastliðnum, til að afla frekari upplýsinga.

En það stóð á svörum frá Samgöngustofu. Hún vildi eingöngu staðfesta að Atlanta hefði sótt um heimild til vopnaflutninga, en frekari upplýsingar yrðu ekki veittar, þar sem það gæti haft neikvæð áhrif á viðskipti Atlanta. Kveikur vísaði málinu þá til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem enn hefur ekki skilað niðurstöðu, tæpum fjórum mánuðum síðar. Opinberar upplýsingar um ferðir Atlanta með vopn til Sádi-Arabíu eru því ekki komnar fram og óvíst að þær geri það.

Kveikur aflaði upplýsinga annars staðar og er meðal annars með útflutningsleyfi fyrir vopn frá Slóvakíu. Vopn sem voru samkvæmt heimildum Kveiks flutt með vélum Atlanta.

Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur - RÚV
Samgöngustofa vill ekki veita upplýsingar sem Kveikur hefur óskað eftir.

170.000 jarðsprengjur

Heimildirnar ná meðal annars til 2.000 eldflaugavarpa – sem oft eru kallaðar basúkur. Á listanum eru líka ýmiss konar skotfæri, 850.000 talsins. 850 öflugar vélbyssur, 750 sprengjuvörpukúlur og yfir 170.000 jarðsprengjur af ýmsum gerðum.

Myndskeið, sem Kveikur hefur séð, staðfestir að vopn hafa verið um borð í vélunum á leið til Sádi-Arabíu.

Heimildarmenn Kveiks staðfesta fjölda flugferða með vopn og segja að í Sádi-Arabíu taki við vélunum ómerktir pallbílar sem aki farminum beinustu leið í burtu, en ekki inn á herstöðina. Þeir segja líka að starfsmenn Atlanta viti fullvel hvað þarna sé flutt. Rannsóknir OCCRP og BIRN sýna að Atlanta hefur tekið þátt í þessum vopnaflutningum.

Atlanta segist bundið trúnaði

Flugfélagið Atlanta neitar því heldur ekki að félagið flytji vopn, en vill hins vegar ekki að veittar séu frekari upplýsingar. Í bréfi sem lögfræðingur félagsins ritaði Samgöngustofu vegna fyrirspurnar Kveiks, kom þetta skýrt fram.

„Ljóst má vera að slíkar upplýsingar sem hér um ræðir geta verið hernaðarlega mikilvægar fyrir viðskiptavini félagsins, eiganda farmsins og/eða móttakanda hans. Air Atlanta er bundið trúnaði gagnvart þessum aðilum […] Með vísan til alls ofangreinds mótmælir félagið veitingu frekari upplýsinga um hergagnaflutninga félagsins, enda gæti slíkt valdið félaginu ómældu tjóni sökum trúnaðarbrests gagnvart viðskiptavinum. Félagið gæti átt yfir höfði sér fjárkröfur vegna slíks auk þess sem samningar við viðkomandi aðila, sem hafa verið við lýði um árabil, gætu verið í uppnámi með ófyrirséðum afleiðingum.“

Félagið vísar til upplýsingalaga og undantekningarákvæða þar, en á móti kemur að vart er hægt að skilja íslensk lög og bindandi alþjóðasáttmála á annan veg en svo, að þessir flutningar séu brot á þeim.

Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur - RÚV
Bjarni Már Magnússon, dósent í lögum við Háskólann í Reykjavík.

Íslensk lög ná yfir flugið

Bjarni Már Magnússon, dósent í lögum við Háskólann í Reykjavík, benti í viðtali við Kveik á lög númer 93 frá 2008, um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða. Þau lög taka til íslenskra lögaðila hvar sem þeir eru staddir í heiminum, og brot á þessum lögum getur varðað allt að sex ára fangelsisrefsingu.

Með vísan til þessara laga var árið 2015 sett reglugerð, þar sem ályktun öryggisráðsins um hömlur á vopnasölu til Jemens var tekin upp. Það þýðir að brjóti Íslendingur eða íslenskt fyrirtæki gegn vopnasölubanninu er það brot á lögunum um alþjóðlegar þvingunaraðgerðir.

Við þetta bætist vopnasölusamningur Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland var meðal fyrstu ríkja til að fullgilda árið 2013. „Samkvæmt honum er ríkjum óheimilt að heimila flutninga á vopnum sem eru þá notuð til dæmis gegn almenningi í stríðsátökum, eru notuð í stríðsglæpum eða sem sagt glæpi gegn mannúð,“ segir Bjarni.

Skiptir máli hvert vopnin fara

Patrick Wilcken hjá Amnesty International segir þennan samning mjög skýran og hann taki sérstaklega til þess þegar vopnum sé beitt til að fremja alvarleg mannréttindabrot.

„Það er alveg ljóst í þessu tilfelli að vopnin sem hér um ræðir og send voru til Sádi-Arabíu eru allt annars eðlis en þau vopn sem her Sáda notar. Það hefðu margar viðvörunarbjöllur átt að hringja hjá þeim ríkjum sem tekið hafa þátt í þessum flutningum. Um líkurnar á að vopnin bærust lengra. Það eru ekki nýjar fréttir að Sádar og ríkin við Persaflóa séu viðriðin vopnaflutninga til Sýrlands. Svo hér vantaði með öllu áreiðanleikakönnun og áhættumat að hálfu þessara ríkja. Slíkt hefði leitt í ljós miklar líkur á að vopnin bærust í hendur annarra en skráðra móttakenda,“ segir Wilcken.

En hvorki Atlanta né íslensk stjórnvöld virðast hafa veitt því neina athygli, hvaða vopn var verið að flytja hvert.

Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur - RÚV
Frá skrifstofum Atlanta í Kópavogi.

Segjast starfa innan laga og reglna

Raunar er vart hægt að túlka skrifleg svör Atlanta öðruvísi en svo, að þar á bæ telji menn það hreinlega ekkert koma sér við hvað flutt sé með vélum félagsins – það sé annarra að taka ákvarðanir og bera ábyrgð.

„Flugfélagið Atlanta ehf. starfar í einu og öllu innan þeirra laga og reglna sem varða starfsemi félagsins, hvort sem um er að ræða íslensk lög eða alþjóðasamninga.

Félagið starfar á grundvelli flugrekstrarleyfis sem gefið er út af hálfu Samgöngustofu og lýtur því eftirliti íslenskra yfirvalda. Félagið flytur þannig ekki vopn nema með vitund og samþykki viðkomandi eftirlitsaðila, enda allur slíkur flutningur háður leyfisveitingu íslenskra yfirvalda sem og yfirvalda þeirra landa sem farmurinn er fluttur til og frá.

Flugfélagið Atlanta ehf. er hvorki eigandi né sendandi farms sem fluttur er um borð í flugvélum félagsins. Félagið ber ábyrgð gagnvart viðskiptavinum hvað varðar flutning á farmi frá uppruna- til áfangastaðar og tryggir að öll tilskilin leyfi séu til staðar vegna flutnings hvers konar farms um borð í vélum félagsins,“ segir í svari félagsins. 

Segjast í samráði við ráðuneytið

Kveikur óskaði þess ítrekað að fá viðtal við forstjóra Samgöngustofu til að fá frekari skýringar á því hvernig unnið hefur verið úr svona málum hjá stofnuninni, en því var hafnað að veita viðtal.

Í skriflegu svari Samgöngustofu er farið yfir hvernig unnið hefur verið úr óskum um vopnaflutninga. Þjónustusvið og farsvið stofnunarinnar hafi farið yfir umsóknir og fylgigögn. Engin dæmi séu um að umsókn hafi verið hafnað. Afgreiðslan var því í raun hreint formsatriði.

Þegar umsóknir snerust um mikið magn vopna, eða flutning inn á hættu- og átakasvæði, hafi heimild verið veitt að höfðu samráði við samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið.

En ráðuneytið kannast ekkert við það samráð og telur að úrvinnsla Samgöngustofu hafi ekki verið í samræmi við lög:

Samgöngustofu er óheimilt að veita heimild í slíkum tilvikum án samráðs. […] Ráðuneytinu hafa ekki á nýliðnum árum borist önnur erindi frá Samgöngustofu þar sem óskað hefur verið samráðs vegna slíkrar beiðni.

Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur - RÚV
Vopnin fara gjarnan frá Austur-Evrópuríkjum til Sádi-Arabíu.

Eitt dæmi um að samráð hafi verið haft

Eina dæmið um einhvers konar samráð snýr að máli sem er nokkuð annars eðlis. 23. október sendi Samgönguráðuneytið frá sér óvenjulega fréttatilkynningu, þar sem greint var frá erindi frá Samgöngustofu sem borist hafði þremur dögum fyrr. Þar óskaði Samgöngustofa eftir samráði við ráðuneytið vegna umsóknar erlends flugfélags um að millilenda hér á landi. Um borð í vélinni voru sextán tonn af táragasi á leið til Venesúela.

Ráðuneytið mæltist til þess að flugfélaginu yrði ekki heimilað að millilenda á Íslandi með þennan farm, meðal annars þar sem sextán tonn af táragasi væru mikið magn og líta mætti á Venesúela sem hættusvæði þar sem grundvallarmannréttindi væru ekki virt. Í þessu tilviki var málið skoðað og tekin efnisleg afstaða, en málið ekki afgreitt sjálfvirkt. Lagagreinin, sem byggt var á þegar því var hafnað að úkraínsk flugvél lenti með vopn á Íslandi, er nákvæmlega sama lagagreinin og á við um flutninga íslenskra flugvéla með vopn erlendis.

Verklaginu hefur verið breytt

Það er reyndar rétt að geta þess að eftir að Kveikur tók að spyrjast fyrir um málið var þessu breytt, svo frá október í fyrra fara allar óskir um vopnaflutninga til samgönguráðuneytisins, enda er ábyrgðin ráðherra.

„Jú, það er út af því meðal annars að Ísland er aðili að þessum vopnaviðskiptasamningi, þar sem lögð er mikil áhersla á að komast að því hvar vopnin enda. Það er ekki bara að þau séu flutt frá stað A til B. Heldur er áherslan á að koma í veg fyrir að þau endi í höndum þeirra sem eru líklegir til að fremja voðaverk,“ segir Bjarni Már Magnússon.

Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur - RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson er ráðherra samgöngumála.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, er ráðherrann sem ber ábyrgð á þessum málaflokki samkvæmt loftferðalögum. Hann segist ekki geta fullyrt um hvort íslensk stjórnvöld hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni í fortíðinni en að heimildir hafi verið veittar á grundvelli farmskrár, upplýsinga um upphafs- og áfangastað. En samkvæmt alþjóðasáttmálum ber stjórnvöldum að gera meira til að ganga úr skugga um að vopn endi ekki í höndum annarra en tilteknir eru á farmskrá.

Sigurður segir íslensk stjórnvöld ekki geta fylgst með því hvað fari frá einu landi til annars. Stjórnvöld byggi á því að fá upplýsingar um hvort móttökuríki falli undir átakasvæði eða sæti viðskiptaþvingunum. Utanríkisþjónustan sinni því eftirliti enda sé sérþekking á málaflokknum þar. Verið sé að endurskoða reglugerð um vopnaflutninga þar sem taka eigi meira tillit til vopnasölusamnings Sameinuðu þjóðanna.

„Það er auðvitað í anda okkar utanríkisstefnu að stuðla að friði í heiminum með friðsamlegum hætti. Þannig að við viljum ekki vera þátttakendur í öðru. Við erum hluti af alþjóðakerfinu til að koma í veg fyrir þetta og það er mikilvægt að við sinnum okkar hluta,“ segir hann.

Segir stjórnvöld hér hafi brugðist

„Íslensk stjórnvöld hafa brugðist því þau hafa ekki farið eftir bindandi alþjóðasáttmálum“, segir Wilcken. Flugfélagið Atlanta beri einnig ábyrgð og geti ekki falið sig á bak við leyfi frá stjórnvöldum. Félaginu beri að virða grundvallarmannréttindi.

Atlanta hefði átt að leggja sjálfstætt mat á hættuna og tryggja að það tæki ekki þátt í vafasömum vopnaflutningum sem hætta væri á að leiddu til alvarlegra mannréttindabrota.

ingolfurbs's picture
Ingólfur Bjarni Sigfússon
Fréttastofa RÚV