Íslensk barnabók um heimsviðburð

Mynd: RÚV / RÚV

Íslensk barnabók um heimsviðburð

10.11.2019 - 18:41

Höfundar

Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti segir að barnabók um kjör hennar sé góð leið til að útskýra og kynna fyrir börnum hversu mikil tímamót það voru að kona var í fyrsta sinn kjörin forseti í lýðræðislegum kosningum.

Mikið og margt hefur verið skrifað um Vigdísi Finnbogadóttur, bækur og fleira. Rán Flygenring hefur skrifað bók fyrir börn sem segir söguna af fyrsta lýðræðislega kjörna kvenforseta heims. Rán segist hafa unnið bókina með Vigdísi. 

„Við hittumst nokkrum sinnum í ferlinu, alveg í blábyrjun og svo fékk ég að heimsækja hana og kíkja aðeins á ljósmyndirnar í stofunni og svoleiðis og svo hittumst við í lokin líka þar sem hún hjálpaði mér mjög mikið að gera þetta enn betra.“

Fjöldi barna þekkir nafn Vigdísar, en það er ekki víst að þau og hvað þá önnur börn geri sér grein fyrir tíðindunum og tímamótunum þegar Vigdís var kjörin. Vigdís segir að bók sem þessi sé ágæt leið til að gera börnunum grein fyrir því hvað þetta þýddi.

„Þess vegna er þessi bók svo ágæt. Við getum verið hreykin af því, ég vissi þetta ekki einu sinni sjálf að ég væri fyrst í heiminum, en við getum verið hreykin af því að það gerðist hérna heima á Íslandi að heil þjóð treysti sér til að kjósa konu. Mér hefur alltaf fundist þetta vera svo gott fyrir ungar stúlkur, úr því hún getur það, þá get ég það,“ segir Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti. 

Hún segir að barnabók um kjör hennar sé góð leið til að útskýra og kynna fyrir börnum hversu mikil tímamót það voru að kona var í fyrsta sinn kjörin forseti í lýðræðislegum kosningum.

Sögunni er fylgt nokkuð vel í bókinni, og nefnd ýmis atvik í ferlinu, til dæmis þegar áhöfn vestfirsks togara skoraði á Vigdísi að bjóða sig fram. Hún segir að bókin sé skemmtileg og í henni sé margt sniðugt.

„Til dæmis eins og þegar ég stend fyrir framan Alþingishúsið og er að taka við embættinu. Þá heyrist Jón Sigurðsson segja: Vér mótmælum þessu ekki.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV