Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Íslendingur sagður valdamikill dópsmyglari

14.01.2016 - 21:55
Mynd með færslu
 Mynd: ABC Color
Íslendingurinn Guðmundur Spartakus - sem ekkert hefur spurst til í rúm tvö ár - er samkvæmt lögreglunni í Paragvæ valdamikill eiturlyfjasmyglari með viðamikla starfsemi þar og í Brasilíu. Hann er sagður notast við fölsk skilríki - hann sé þýskur fasteignasali sem stundi viðskipti í löndunum tveimur.

Þetta kemur fram í grein sem birtist á ABC-fréttamiðlinum í Paragvæ í kvöld - hann er einn sá vinsælasti og víðlesnasti þar í landi .

Nafn Guðmundar skaut heldur óvænt upp kollinum í fréttum í vikunni þegar þessi sami miðill fjallaði stuttlega um hann og hvort hann væri týndur í Paragvæ. Faðir Guðmundar sagði ekkert hæft í þessum fréttaflutningi í viðtali við dv.is - hann hefði síðast heyrt frá syni sínum á Skype um áramótin.

Í frétt ABC í kvöld kemur fram að Guðmundur sé talinn starfa í bæjunum Amambay og Salto del Guairá, nálægt landamærum Paragvæ og Brasilíu. Íslenska lögreglan er sögð leita Guðmundar í tengslum við hvarf annars Íslendings sem síðast sást í Paragvæ og að Guðmundur sé talinn viðriðinn hvarf hans. Blaðið er væntanlega að vísa til máls Friðriks Kristjánssonar sem ekkert hefur spurst til síðan í mars 2013.

Heimildarmenn blaðamanns ABC úr röðum fíkniefnalögreglunnar í Brasilíu segja Guðmund einn höfuðpauranna á bak við umfangsmikið smygl kókaíns frá Suður-Ameríku til Evrópu og e-taflna frá Evrópu til Suður-Ameríku. Smyglið fari í gegnum Brasilíu.

Brasilísku lögreglumennirnir benda á að þeir hafi handtekið Brasilíumenn og Íslendinga sem taldir eru burðardýr á vegum Guðmundar Spartakus sem smygla átti til Evrópu.

Þannig rifjar blaðið upp að í júlí á síðasta ári hafi brasilíska lögreglan handtekið brasilíska stúlku sem búsett er í Lissabon, á flugvellinum í Rio de Janeiro. Í farangri hennar hafi fundust 46.000 e-pillur. Við yfirheyrslur upplýsti hún að hún ætti að afhenda efnið einum Brasilíumanni og Íslendingi. Afhendingin átti að fara fram í auðmannahverfinu Ipanema í Rio de Janeiro. Báðir mennirnir séu nú í fangelsi í Brasilíu.

Á annan dag jóla var svo íslenskt par, 26 ára gamall karlmaður og tvítug stúlka handtekið í Fortaleza í Brasilíu, með fjögur kíló af kókaíni falið í farangri sínum. Parið var að gera sig ferðbúið til að halda út á flugvöll og fara til Evrópu.

Allt bendi til þess að hér sé á ferðinni umfangsmikill smyglarahringur sem stjórnað sé af Brasilíumönnum, Paragvæjum og Íslendingum. Þeir stundi umfangsmikið smygl e-taflna frá Evrópu og kókaíns frá Suður-Ameríku til Evrópu.

Talið er að Guðmundur Spartakus sé einn höfuðpaura smyglhringsins sem teygir starfsemi sína til Salto del Guairá, Concepción og brasilískra bæja við landamæri Brasilíu og Paragvæ.

Samkvæmt heimildum blaðsins, innan fíkniefnalögreglunnar í Brasilíu sem ekki vilja koma fram undir nafni, notar Guðmundur Spartakus fölsuð skilríki í Paragvæ. Þar kemur fram að hann sé þýskur fasteignasali sem stundi viðskipti í Paragvæ og Brasilíu.

ATH: Í upphaflegri grein var að finna nafn Íslendings, Rúnars Guðjóns Svanssonar, og fullyrt að hann sæti í fangelsi í Brasilíu - það er ekki rétt. Rúnar Guðjón er á Íslandi og biðst fréttastofa afsökunar á misstökunum.