34 ára gamall Íslendingur, Gunnar Þór Grétarson, er eftirlýstur af Interpol vegna gruns um aðild að smygli á 4 kílóum af amfetamíni til Íslands. Brot Gunnars eru sögð varða allt að tólf ára fangelsi.
Samkvæmt heimildum fréttastofu var íslenskur piltur handtekinn í Svíþjóð í október á síðasta ári með fíkniefnin sem flytja átti til Íslands. Pilturinn er enn í haldi lögreglunnar þar og bíður nú dóms.
Heimildir fréttastofu herma að Gunnar Þór sé grunaður um að hafa skipulagt smyglið. Fram kemur á vef Interpol að Gunnar Þór sé bæði eftirlýstur vegna dóms sem hann hafi hlotið og fyrir fíkniefnasmyglið.
Í þeim dómi kom fram að hann ætti sakaferil að baki allt frá árinu 1998. Hann hafði þá verið dæmdur sautján sinnum fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefna og umferðalögum.