Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íslendingar verða orðnir 434 þúsund eftir 49 ár

22.11.2019 - 09:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Guðmundur Bergkvist
Íslendingum fjölgar um 77 þúsund á næstu 49 árum, samkvæmt spá Hagstofunnar. Um síðustu áramót voru Íslendingar 357 þúsund talsins en verða 434 þúsund árið 2068. Spáin er þrenns konar og er þessi tala samkvæmt miðspá. Gangi háspá eftir verða landsmenn orðnir 506 þúsund að 49 árum liðnum.

Þá er því einnig spáð meðalævilengd lengist. Þannig geta stúkubörn sem fæðast í ár vænst þess að ná 84 ára aldri en þær stúlkur sem fæðast árið 2067 mega búast við því að 88,7 ára. Drengir sem fæðast í ár mega vænta þess að verða 79,9 ára en þeir sem fæðast að 48 árum liðnum geta séð fram á að ná því að verða 84,4 ára.

Á hverju ári flytjast fleiri til Íslands heldur er frá því og skýrist það fyrst og fremst vegna þess að hingað koma fleiri erlendir innflytjendur. Fleiri íslenskir ríkisborgarar flytja frá landinu en til þess. „Undanfarin ár hafa mun fleiri karlar en konur flust til landsins. Í ársbyrjun 2019 voru 1.050 karlar á hverjar 1.000 konur. Gert er ráð fyrir að þessi ójöfnuður vaxi næstu ár en síðan dragi úr honum,“ segir í mannfjöldaspá Hagstofunnar.

Aldurspíramídinn breytist á næstu áratugum, gangi spáin eftir. Þannig er því spáð að árið 2035 verði 20% mannfjöldans eldri en 65 ára og árið 2055 yfir 25%. „Ennfremur verða þeir sem eru eldri en 65 ára fleiri en þeir sem eru 19 ára og yngri frá árinu 2046, öfugt við það sem nú er,“ segir í mannfjöldaspánni.

Meðalaldur Íslendinga er lægri en í ríkjum Evrópusambandsins og er gert ráð fyrir að svo verði áfram.