Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íslandsvinur í miklum vanda með rekstur sinn

26.05.2019 - 13:45
Mynd með færslu
 Mynd: EPA - RÚV
Verslunakeðjan Arcadia glímir við verulega rekstrarerfiðleika og segja stjórnendur ástæðuna einkum vera mikill lausafjárskortur. Fjallað er um rekstrarerfiðleikana á vef BBC í dag. Íslendingar muna ef til vill best eftir fyrirtækinu frá þeim tíma þegar Baugur Group freistaði þess að eignast hlut í henni skömmu eftir aldamót. 

Fyrirtækið selur vörur undir merkjum Burton, Dorothy Perkins, Evans, Miss Selfridge, Outfit, Topshop, Topman og Wallis. Eigendur Arcadia vilja grípa til úrræðis sem kallað er CVA, sem felst meðal annars í því að fyrirtæki geta endursamið um afborganir af lánum, leigugreiðslum vegna húsnæðis, og fleiri föstum grieðslum. 

Arcadia er skráð eign lafði Tinu Green, eiginkonu stjórnarformannsins Sir Philip Green. Stjórnendur segja að sala í verslunum fyrirtækisins hafi dregist saman um 9 prósent á tímabilinu 2018 til 2019. Gert er ráð fyrir að tekjur fyrirtækisins snarminnki í ár og verði mun minni en fastar greiðslur. Það er því við ramman reip að draga.  

Ástæður fyrir rekstrarvanda Arcadia eru taldar vera margvíslegar. BBC nefnir meðal annars lækkun á gengi pundsins og aukinn launakostnaður. Þá nefna einhverjir að eftirspurn eftir þeim vörumerkjum sem Arcadia ræður yfir sé einfaldega að minnka. Þá er jafnvel rætt um arðgreiðslu sem greidd var árið 2005 út úr móðurfélagi Arcadia, Taveta, til Green fjölskyldunnar. 

Stjórnarformaður Arcadia, Phillip Green, hefur haft talsverð tengsl við Ísland. Sem fyrr segir unnu hann og Baugur Group að yfirtöku að Arcadia árið 2002. Eftir að Baugsmálið hófst dró Baugur sig þó út úr þeim viðskiptum. Þá kom Green hingað til lands eftir bankahrun og fundaði meðal annars með þáverandi viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðssyni. 

Hér má lesa umfjöllun BBC um Arcadia.
 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV