Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Íslandi ekki boðið vegna hvalveiða

11.06.2014 - 18:49
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslandi er ekki boðið á stóra hafráðstefnu sem Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna stendur fyrir 16.-17.júní. Ástæðan er hvalveiðar. Fyrrverandi utanríkisráðherra segir þetta merki um harðnandi aðgerðir Bandaríkjanna gagnvart hvalveiðum Íslendinga.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna er í forsvari fyrir ráðstefnuna Our Ocean. Ráðamönnum og sérfræðingum frá mörgum löndum  er boðið að taka þátt og leggja orð í belg.

Þótt Íslendingar séu ein stærsta fiskveiðiþjóð í Norður- Atlantshafi og hafi sóst eftir því að taka þátt í ráðstefnunni, er Íslendingum ekki boðið. Samkvæmt Utanríkisráðuneytinu er ástæðan hvalveiðar. Utanríkisráðherra vill ekki tjá sig um málið.

Fyrrverandi utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, segir þetta merki um harðnandi aðgerðir Bandaríkjanna gagnvart hvalveiðum Íslendinga.  Sérstaklega í ljós þess að í febrúar 2013 hafi John Kerry sjálfur haft frumkvæði að því að ræða þessa ráðstefnu við Össur þegar þeir hittust í  Róm, og sýnt áhuga á áberandi framlagi frá Íslandi. 

„Ég lagði þá til þá sem ég tel bestu talsmenn Íslands á erlendri grundu og hann tók þeirri tillögu ákaflega vel. Ég tel að þetta sé lang alvarlegasta aðgerðin sem Bandaríkjamenn hafa gripið til í sinni baráttu við hvalveiðum Íslendinga og mér sýnist þetta marka kaflaskil og það megi búast við því að á næstunni þá munu þeir hugsanlega grípa til harðari aðgerða en þeir hafi gert hingað til,“ segir Össur.