Síðustu 20 ár hafa orðið miklar breytingar á áliðnaði í heiminum. Þar er Kína í lykilhlutverki. Árið 2010 var hlutdeild Kína í álframleiðslu 10 prósent en í fyrra var hún komin upp í 56 prósent. Þessi aukning hefur fyrst og fremst verið á kostnað Evrópu og Ameríku.
Martin Jackson, sem starfar við að greina þróun á álmarkaði í heiminum fyrir ráðgjafafyrirtækið CRU, segir Kína hafa gjörbreytt landslaginu. „Það hefur leitt til róttækra breytinga. Einkum hvað snertir orkulindir við framleiðslu á áli.“
Evrópa berskjölduð gagnvart Kína
Þarna á Martin við hvaða orkugjafa álfyrirtækin nota. Langstærstur hluti álvera í Kína er knúinn kolum og hefur hluti jarðefnaeldsneytis í heimsframleiðslunni stóraukist samhliða auknum umsvifum Kína.
Evrópuríki hafa svarað auknum útblæstri með kolefnissköttum á framleiðendur en kínverskir framleiðendur þurfa ekki að greiða slíka skatta á sínar útflutningsvörur. Það, og hár orkukostnaður, leiðir til þess að evrópskir framleiðendur fara halloka í samkeppni við Kína.
„Og þá sérstaklega út af háu orkuverði; Ísland er þar undantekningin en að öllu jöfnu er orkuverð í Evrópu mun hærra en í flestum öðrum heimshlutum. Svo að Evrópa er mun berskjaldaðri en önnur framleiðslusvæði,“ segir Martin.
Neytendur horfa til framleiðslunnar
Það er ekki bara minni orkukostnaður sem hjálpar álframleiðendum á Íslandi, heldur tilurð orkunnar. Bein og óbein kolefnislosun frá álframleiðslu á Íslandi er 1,8 tonn á hvert framleitt tonn af áli á meðan meðaltal á heimsvísu er 9,6 tonn.
Þetta er eitthvað sem bæði framleiðendur og neytendur eiga eftir að horfa til í auknum mæli. „Við teljum íslenskar álverksmiðjur vera í góðri stöðu. Útblástur frá þeim er einn sá minnsti í heimi. Og þá einkum vegna orkunnar sem þær nota, vatnsorkunnar. Svo að ef græn vottun kemst á laggirnar, ef neytendur vilja greiða meira fyrir ál sem hefur minni útblástur af CO2 í för með sér þá er samkeppnisstaða þeirra mjög hagstæð.