Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ísland komið á gráan peningaþvættislista FATF

18.10.2019 - 10:37
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Norðurlandi eystr
Ísland hefur verið sett á gráan lista FATF, alþjóðlegs starfshóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Önnur lönd sem bætast við á listann eru Mongólía og Simbabve. Af listanum detta hins vegar Eþíópía, Sri Lanka og Túnis.

Á listanum eru lönd sem eru talin hafa ekki gripið til nægra aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. 

Óljóst er hvaða áhrif þetta mun hafa á Ísland. Þeir sem fréttastofa hefur rætt við í dag og í gær segja að færi Ísland á listann myndu áhrifin birtast fyrst og fremst í því að erfitt gæti orðið fyrir fyrirtæki að stofna til nýrra viðskiptasambanda erlendis - fyrir utan augljósa orðsporshnekki.

Áfellisdómur fyrir stjórnvöld

Í skýrslu FATF frá 2018 var bent á 51 ágalla á umgjörð og framkvæmd í málaflokknum á Íslandi. Skýrslan hefur verið kölluð áfellisdómur og hafa margir gagnrýnt stjórnvöld fyrir hægagang við að bregðast við ábendingum FATF. 

Síðan þá hafa hins vegar dómsmálaráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið unnið að úrbótum ásamt Fjármálaeftirlitinu, Ríkislögreglustjóra, Ríkisskattstjóra og Tollstjóra. Fram kom í fréttum í gær að stjórnvöld teldu sig vera búin að bregðast við athugasemdunum - eitt atriði væri útistandandi en þó komið langt á veg. 

Þetta eina atriði er innleiðing á nýju upplýsingakerfi hjá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu til að taka á móti tilkynningum um grunsamlegar færslur. Það liggur þó fyrir að stjórnvöld hafi keypt nýtt upplýsingakerfi en innleiðing á því taki tíma og verði líklegast lokið í apríl á næsta ári. 

Fréttin hefur verið uppfærð