Ísland kemur við sögu í The Simpsons

Mynd með færslu
 Mynd:

Ísland kemur við sögu í The Simpsons

17.04.2013 - 20:12
Ísland kemur við sögu í lokaþætti 24. þáttaraðarinnar í teiknimyndaseríunni The Simpsons. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ísland leikur stórt hlutverk í þáttunum um gulu fjölskylduna frá Springfield.

Aðdáendur sjónvarpsþáttanna um Simpsons fjölskylduna fá tvöfaldan skammt 19. maí næstkomandi þegar tveir síðustu þættirnir í 24. þáttaröðinni verða sýndir. Ísland er mikill örlagavaldur í fyrri þættinum sem hefur verið gefið nafnið The Saga of Carl Carlsson. Gallharðir aðdáendur Simpsons-fjölskyldunnar vita að Carl þessi, sem er starfsfélagi Homers í kjarnorkuveri bæjarins, er afrískur Íslendingur .

Í lokaþættinum umrædda detta Carl, Lenny, Homer og bareigandinn Moe í lukkupottinn þegar þeir hreppa stóra vinninginn í happdrætti Springfield. Carl ákveður hins vegar að stinga af með allan peninginn til Íslands. Hinir þrír, með Homer í broddi fylkingar, ætla ekki að láta Carl komast upp með svikin og leggja af stað í norrænt ferðalag, eins og það er orðað í fréttatilkynningu frá Fox-sjónvarpsstöðinni.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ísland kemur við sögu í Simpsons því fyrir nokkrum árum birtust ramm-íslensk mótmæli í þættinum. Þar mátti sjá furðulega samsettar setningar sem augljóslega voru byggðar á þýðingarforriti Google, google/translate.