Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Ísland hartnær íslaust land“ innan 200 ára

17.08.2019 - 13:15
Mynd: Veðurstofa Íslands / Veðurstofa Íslands
Ísland verður hartnær íslaust land innan 200 ára. Þetta segir Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur á Veðurstofu Íslands. Hann segir ljóst að þegar einn jökull bráðnar, fylgi aðrir jöklar í kjölfarið.

Bandaríska geimferðastofnunin NASA birti myndband á mánudag þar sem sjá má ísbreiðu jökulsins Oks hverfa. Á morgun ætlar hópur fólks að ganga á Ok. Þar afhjúpa Andri Snær Magnason rithöfundur, Oddur Sigurðsson jarðfræðingur, og vísindamenn frá Rice-háskóla í Texas í Bandaríkjunum, minnismerki um jökullinn sem hvarf. Ok var eitt sinn 50 metra þykkur jökull og náði yfir 15 ferkílómetra, en núna nær ísinn yfir svæði sem er minna en einn ferkílómetri og er orðinn 15 metra þykkur. Til þess að geta talist jökull þarf ísinn að vera um 40-50 metra þykkur og skríða undan eigin þunga. Oddur segir að það sé ekki bara Okið sem sé að hverfa. Til dæmis sé ljóst að Hofsjökull eystri lifi ekki af næsta áratuginn.

„Vinnufélagar mínir, bæði á Veðurstofunni og í Háskólanum hafa reiknað út með líkönum að það loftslag sem væntanlegt er næstu tvær aldir dugi til þess að allir Íslandsjöklar bráðni  í stórum dráttum. Það verði kannski einhverjir smájöklar á hæstu fjöllum en að þeir muni hverfa innan 200 ára. Þannig að þá verður Ísland hartnær íslaust land.“

Þola ekki hlýindi

Oddur segir að Hofsjökull eystri sé í hvað verstri stöðu - hann hverfi að öllum líkindum á næsta áratug.

„Og Kaldaklofsjökull sem er á bak við Landmannalaugar ef svo má segja, Torfajökull, Þrándarjökull á Austfjörðum, þeir eiga ekki langt eftir. Síðan koma í kjölfarið Tindfjallajökull og Snæfellsjökull sem munu ekki þola þessi hlýindi.“

Jöklarnir á Tröllaskaga, sem séu mikið til í skugga, muni hins vegar endast lengur. Oddur segir að íslenskir vísindamenn hafi ekki farið varhluta af því að Okið hafi vakið mikla athygli erlendra fjölmiðla.

„Auðvitað skiptir ekki máli fyrir heimsbyggðina og ekki Ísland heldur hvort einn lítill jökull bráðnar til fulls eða ekki. En hann er hins vegar vísbending um þetta stórkostlega sem er að gerast í allri veröldinni. Og þar sem einn fer munu aðrir fylgja eftir,“ segir Oddur.