Þetta kemur fram í minnisblaði Ólafar Nordal, innanríkisráðherra, sem kynnt var fyrir ríkisstjórninni á fundi hennar í morgun.
Í minnisblaðinu er útskýrt að hópurinn - sem nefnist FATF - geri reglulega úttektir á lögum, reglum og starfsaðferðum aðildarríkja og geri á grundvelli þeirra kröfur um úrbætur. Bregðist ríki ekki við kröfum FATF geta aðildarríkin sammælst um að beita hvert annað þrýstingi til dæmis með því að setja ríki á sérstakan lista yfir „ósamvinnuþýð“ ríki eða ríkjasvæði.
Forseti vinnuhópsins kynnti fyrir íslenskum ráðamönnum þrjár nauðsynlegar aðgerðir sem hópurinn leggur megináherslu á að verði lokið fyrir 1. júní á þessu ári.
Í minnisblaði ráðherrans kemur fram að þetta sé meðal annars styrking peningaþvættisskrifstofu fyrir 1.júlí 2015, lagabreytingar varðandi skyldur til þess að bera kennsl á og staðreyna upplýsingar um raunverulegan eiganda og greið birting lista yfir hryðjuverkamenn og samtök.
Í minnisblaði ráðherrans kemur fram að ráðherrann hafi lagt fram frumvarp þar sem lagt er til að nýtt embætti héraðssaksóknara annist verkefni peningaþvættisskrifstofu. Ráðherra leggi áherslu á að frumvarpið nái fram að ganga á vorþingi og taki gildi 1. júní á þessu ári.
Þá sé einnig unnið að gerð tillagna að lagabreytingum sem varða skýrari skyldur fjármálastofnana til að bera kennsl á og staðreyna upplýsingar um raunverulegan eiganda viðskiptavinar. Stefnt sé að því að kyna tillögurnar fyrir ríkisstjórninni fyrir 1.mars. Ráðherra segir að þá verði einnig kynntar tillögur að lagabreytingum sem eiga að greiða fyrir skjótri birtingu lista yfir hryðjuverkamenn og samtök sem eru háð frystingu fjármuna.
Ólöf segir jafnframt í minnisblaðinu að hún ætli að stofna formlegan stýrihóp um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem hafi það hlutverk að gera tillögur til stjórnvalda um úrbætur til samræmis við tilmæli FATF á hverjum tíma. „Jafnframt verði stýrihópurinn stjórnvöldum til ráðgjafar í málefnum tengdum aðgerðum gegn peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka og frystingu fjármuna.“
[email protected]