Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ísland „friðlýst svæði fyrir kjarnavopnum“

04.09.2019 - 11:17
Mynd: RÚV / RÚV
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að utanríkismálanefnd hafi ekki fengið staðfest hvort að kjarnavopn hafi verið um borð í bandarískri B2 sprengjuþotu sem Vísir greinir frá að hafi komið óvænt hingað til lands á fimmtudag. Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, segir að ef friðlýsing Íslands fyrir kjarnavopnum eigi að vera einn af hornsteinum þjóðaröryggisstefnu landsins, að þá verði að framfylgja henni.

Þorgerður Katrín segir að utanríkismálanefnd hafi ekki fengið miklar upplýsingar um heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, sem kemur til landsins í hádeginu. „Við höfum eiginlega fengið engar upplýsingar. Eitthvað bara svona almennt hjal og tal um það hvað þessi heimsókn hugsanlega muni fjalla um en þetta er augljóslega mál sem við munum og þurfum að kafa ofan í og þurfum að fá það staðfest að það hafi ekki verið nein kjarnavopn með þessari flugvél og fá það skýrt fram og til hvers var hún þá hérna.“  

Talað sé um að flugvélin sé meðal annars tæknilega útbúin til leitar að  nýrri tegund kafbáta Rússa. „Þá er það ákveðið svar en við þurfum að fá það á hreint,“ segir Þorgerður Katrín. „Það er náttúrlega algjörlega óboðlegt að það komi hérna flugvél hugsanlega með kjarnavopnum samhliða heimsókn varaforsetans. Við förum bara yfir það og það verður gert í trúnaði.“    

Hér má sjá frétt Vísis um herþotuna. Sagt var frá lendingunni á vef bandaríska flughersins. Þar kemur fram að áhöfn vélarinnar hafi æft hraða eldsneytisupptöku. 

Ísland friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, segir að þetta sé eitt af því sem verði að vera uppi á borðum.  Í þjóðaröryggisstefnu Íslands sé sérstaklega kveðið á um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum. „Ég vona það að allir flokkar standi vörð um þann hluta stefnunnar eins og annan.“

Hann segir að því miður hafi sú hefð skapast að Alþingi og utanríkismálanefnd frétti af málum eftir á. Hann hyggst leggja fram tillögu í upphafi þings um að allar breytingar á varnarsamningi og uppbyggingu hernaðarmannvirkja hér á landi verði að leggja fyrir Alþingi til samþykktar. Þingmenn geti þá tekið þátt í umræðunni óháð því hvað þeim finnist um viðveru hers eða aðild að NATO.

Þorgerður Katrín segir að styrkja þurfi þingið og skyldubundið upplýsingaflæði til þingsins, hvort sem það sé í trúnaði eða ekki, svo þingið geti tekið afstöðu til málsins. Framfylgja verði þjóðaröryggisstefnunni í heild og henni verði að fylgja eftir til að tryggja varnir landsins. 

„Ef okkur var alvara með það að friðlýsing fyrir kjarnavopnum eigi að vera einn af hornsteinum þjóðaröryggisstefnu Íslands þá eigum við að framfylgja því,“ segir Kolbeinn. „Þingið á að geta sameinast um að hér sé friðlýst svæði fyrir kjarnavopnum og inn fyrir það komi aldrei nein tæki eða tól sem geti borið kjarnavopn. Það er bara gott ef við getum sameinast um það.“

Í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu um viðveru B-2 sprengjuflugvélarinnar kemur fram að engin áform séu um lengri viðdvöl slíkra véla né heldur annarra svipaðra á Íslandi. „Bent skal á að margar tegundir sprengjuflugvéla víða um heim eru hannaðar til að geta flutt ýmsar tegundir vopna. Stjórnvöldum í bandalagsríkjum, þar á meðal Bandaríkjunum, er vel kunnugt um þá stefnu íslenskra stjórnvalda að kjarnavopn verði hvorki staðsett á né flutt um Ísland. Frá þeirri stefnu hefur ekki og verður ekki hvikað.“.

Fréttin var uppfærð klukkan 12:04 með svari frá utanríkisráðuneytinu. 

Hægt er að hlusta á allt viðtalið, sem var í Morgunútvarpi Rásar 2, í spilaranum hér fyrir ofan. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV