Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Ísland er svo mikil paradís“

Mynd: Djók í Reykjavík / RÚV

„Ísland er svo mikil paradís“

28.04.2018 - 12:30

Höfundar

Uppistandarinn Ari Eldjárn er nýkominn úr mikilli grínreisu frá Ástralíu þar sem hann tók þátt í gríðarstórri uppistandshátíð í Melbourne. Ari var föstudagsgestur Síðdegisútvarpsins þar sem hann sagði frá landvinningum sínum á erlendri grundu undanfarið.

Uppistandsferillinn hefur dregið Ara í ýmsar áttir síðustu misseri og hefur hann meðal annars troðið upp á Englandi, þá bæði fyrir framan áhorfendur og einnig á númiðlum fyrir BBC. „Það var einn þáttur sem ég var í fyrir jól, frábær þáttur sem heitir Welcome to wherever you are, og er svar BBC við Brexit,“ segir Ari. „Pælingin er sú að það séu bara útlenskir grínistar og enginn þeirra sé í Bretlandi. Maður er bara að skemmta yfir Skype, og hlusta svo á það í heyrnartólum.“

Mynd: RÚV / RÚV
Ari Eldjárn kom fram í þættinum Djók í Reykjavík sem sýndur er á RÚV um þessar mundir

Ástralir elska Eurovision

Aðspurður um kveikjuna að Ástralíuförinni segir Ari að erlendur umboðsmaður hans hafi „kýlt það í gegn,“ og komið honum á grínhátíð í Melbourne. „Þar sýndi ég þessa sömu sýningu tuttugu og þrisvar sinnum og það var algjörlega frábært,“ segir hann og bætir við að hann hafi verið hræddur um að vera kominn of langt í burtu landfræðilega. „Mikið af gríninu er um Norðurlöndin og svona, en svo fór þetta að rúlla.“ Hann segir Ástrali svipaða Norðurlandabúum á þann hátt að þeir elski Eurovision og dýrki þegar talað er um það. Íslenski popparinn Ásgeir Trausti var í Ástralíu á sama tíma og Ari, sem bætir við að Ásgeir sé mjög frægur þar í landi. „Konan sem var að vinna við hátíðina var mjög hrifin af honum. Ég fór á tónleika og þar var standandi uppklapp.“

Mynd með færslu
 Mynd: Mið-Ísland - RÚV
Ari á sviði árið 2015

Eignaðist sarp af ensku efni

Ari segir að vinir hans í Finnlandi hafi verið duglegir að bjóða honum á finnskar grínhátíðir og þannig hafi hann eignast sarp af ensku efni. „Ég er búinn að vera í og með að grínast eitthvað á ensku alveg frá því ég byrjaði. Ég ákvað að hafa alltaf einhverja enska viðveru,“ útskýrir Ari. „Eftir nokkur ár af þessu var það bara: ókei, nú er ég kominn með klukkutíma, nú fer ég til Edinborgar,“ segir hann og bætir við, „...eins og allir verða að gera á einhverjum tímapunkti.“ Hann segir að þar séu eins konar uppistandsólympíuleikar. „Ég gerði það í ágúst í fyrra og það hafði mjög miklar afleiðingar. Það kom fullt af fólki að sjá sýninguna, svo mikið gegnumflæði,“ segir hann.

Norðurlandabúar í tísku

Fyrsta sýning Ara í Edinborg kveikti áhuga umboðsmanns sem bauð honum í framhaldinu samning, og segir Ari að í kjölfarið hafi allt farið í gang. „Umboðsmaðurinn sem ég er með er Mick Perrin sem er tour-promoter, hefur túrað menn eins og Eddy Izzard,“ segir Ari. „Þannig er líka möguleiki að fara bara í túr um Bretland.“ Ari segist þó reyna að miða allt við að geta líka búið á Íslandi og einnig að hann sé ekki að slíta sér of mikið. „Það er svo mikið um að vera hér, Ísland er svo mikil paradís,“ segir hann. Hann útilokar þó ekki möguleikann á að flytja út í einhverja mánuði. „Það væri þá helst Bretland. Fólk skilur húmorinn, og Skandínavar og Norðurlandabúar eru bara dálítið í tísku þar,“ segir hann. „Allir eru rosalega hrifnir af Ófærð, til dæmis í Englandi. Og ég er með kafla um það í uppistandinu, því þeim finnst allt svo geggjað.“

Ari segir ánægjuna sem fylgi starfinu fara mikið eftir því hvort að nýtt fólk sé að sjá hann í hvert sinn. „Maður fær svolitla loddaratilfinningu ef að sami vinur manns er alltaf að koma á sýninguna, samt. En það er ótrúlegt hvað maður hefur mikið þol fyrir endurtekningunni,“ segir hann og bætir við að sumt af efninu hans sé frá 2011 en hann sé þrátt fyrir það alltaf jafn kátur að flytja það á sviðinu.

Ari Eldjárn var gestur Síðdegisútvarps Rásar 2 þann 27. apríl 2018.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

„Eins og að láta slefa yfir sig í hálftíma“

Menningarefni

Grunar að Ari Eldjárn nái langt

Menningarefni

Ari Eldjárn kominn á kortið í Bretlandi

Hugarafl, sníkjudýr og Ari Eldjárn