Eignaðist sarp af ensku efni
Ari segir að vinir hans í Finnlandi hafi verið duglegir að bjóða honum á finnskar grínhátíðir og þannig hafi hann eignast sarp af ensku efni. „Ég er búinn að vera í og með að grínast eitthvað á ensku alveg frá því ég byrjaði. Ég ákvað að hafa alltaf einhverja enska viðveru,“ útskýrir Ari. „Eftir nokkur ár af þessu var það bara: ókei, nú er ég kominn með klukkutíma, nú fer ég til Edinborgar,“ segir hann og bætir við, „...eins og allir verða að gera á einhverjum tímapunkti.“ Hann segir að þar séu eins konar uppistandsólympíuleikar. „Ég gerði það í ágúst í fyrra og það hafði mjög miklar afleiðingar. Það kom fullt af fólki að sjá sýninguna, svo mikið gegnumflæði,“ segir hann.
Norðurlandabúar í tísku
Fyrsta sýning Ara í Edinborg kveikti áhuga umboðsmanns sem bauð honum í framhaldinu samning, og segir Ari að í kjölfarið hafi allt farið í gang. „Umboðsmaðurinn sem ég er með er Mick Perrin sem er tour-promoter, hefur túrað menn eins og Eddy Izzard,“ segir Ari. „Þannig er líka möguleiki að fara bara í túr um Bretland.“ Ari segist þó reyna að miða allt við að geta líka búið á Íslandi og einnig að hann sé ekki að slíta sér of mikið. „Það er svo mikið um að vera hér, Ísland er svo mikil paradís,“ segir hann. Hann útilokar þó ekki möguleikann á að flytja út í einhverja mánuði. „Það væri þá helst Bretland. Fólk skilur húmorinn, og Skandínavar og Norðurlandabúar eru bara dálítið í tísku þar,“ segir hann. „Allir eru rosalega hrifnir af Ófærð, til dæmis í Englandi. Og ég er með kafla um það í uppistandinu, því þeim finnst allt svo geggjað.“
Ari segir ánægjuna sem fylgi starfinu fara mikið eftir því hvort að nýtt fólk sé að sjá hann í hvert sinn. „Maður fær svolitla loddaratilfinningu ef að sami vinur manns er alltaf að koma á sýninguna, samt. En það er ótrúlegt hvað maður hefur mikið þol fyrir endurtekningunni,“ segir hann og bætir við að sumt af efninu hans sé frá 2011 en hann sé þrátt fyrir það alltaf jafn kátur að flytja það á sviðinu.
Ari Eldjárn var gestur Síðdegisútvarps Rásar 2 þann 27. apríl 2018.