Ísland er óafsakanlega dýrt land

Mynd: Lögreglan á Norðurlandi eystr / Lögreglan á Norðurlandi eystr

Ísland er óafsakanlega dýrt land

29.01.2020 - 16:08

Höfundar

Halldór Armand segir að stór hluti íslensku þjóðarinnar geti ekki verið heima hjá sér af því föðurland þess sé dýrasti staður á jarðkringlunni. „Fyrir ungt fólk getur það kannski á vissan hátt verið spennandi að flýja, en að hrekja eldri borgara úr landi, er viðbjóðslegt og óafsakanlegt.“

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Ódysseifskviða fjallar um mann sem er á leiðinni heim til sín. Uppruni vestrænna bókmennta, vestrænnar menningar, er 3.000 ára gömul saga um mann sem langar heim, reynir að komast heim, gengur illa að komast heim, en kemst síðan heim. Í upphafi bókar sjáum við heimili Ódysseifs á eynni Íþöku með augum sonar hans Telemakkusar sem á þar í vök að verjast gegn vonbiðlum Penelópu, móður hans og eiginkonu Ódysseifs konungs, sem sitja þar að veislu, 108 talsins, drekka vín Ódysseifs og sólunda eigum hans. 

Þegar við hittum síðan Ódysseif sjálfan er hann fastur á eynni Ógýgju hjá Landgyðjunni Kalypsó og þar situr hann einn á sjávarströndinni og sundurslítur hjarta sínu með gráti, eins og segir í þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar, mænir út á hið ófrjóva haf og eys út tárum, já, tárin þorna ekki af augum Ódysseifs, hann er sígrátandi af heimfýsi, þráir að sjá, þó ekki væri nema reyk stíga upp af föðurlandi sínu. Elsku víðförli Ódysseifur, eini maður mannkynssögunnar sem afrekaði það að ferðast meira en Ásmundur Friðriksson, búinn að vera 10 ár að berjast í Tróju, fyrir vin sinn, fyrir málstað sem varðaði hann sjálfan eða hans ríki ekki neitt, og núna er hann fastur. 

Guðirnir ákveða loks að söguhetjan okkar eigi að fá lausn, svo Kalypsó lætur undan og leyfir honum að fara. En fyrst býðst hún til þess að gera hann ódauðlegan gegn því að hann verði kyrr og minnir hann jafnframt á að konan hans, hún Penelópa, sé nú ekki alveg jafnheit og hún sjálf – þessar dauðlegu konur geti ekki jafnað sér við hinar ódauðlegu að vexti og fríðleik. Þá muni margar raunir jafnframt liggja fyrir Ódysseifi á heimleiðinni. 

Ódysseifur segir eitthvað á borð við ég veit, ég veit, tignarlega gyðja, ekki vera mér reið, ég veit að þetta er allt saman rétt hjá þér. „Engu að síður vil ég og þrey ég eftir því alla daga, að komast til húss míns og sjá minn heimfarardag. En ef einhverr guðanna brýtur far mitt á hinu dimmbláa hafi, skal eg bera það og hafa þolinmóðan hug í brjósti; því mjög margt illt hefi eg áður þolað og í margar raunir ratað á sjó og í hernaði, og má þá þetta bætast þar á ofan.”

Og þannig hefst hin fræga ferð okkar manns heim til Íþöku. Og boðskapur Ódysseifskviðu snýr að heimilinu. Þetta er saga um menn sem réðust á heimili annars fólks í Tróju og vildu síðan komast heim til sín. Það eru allir sífellt heima hjá einhverjum öðrum, eða á leiðinni heim til sín eða heim til einhvers annars, og Ódysseifur konungur holdgerir betur en nokkur annar eftirfarandi innsæi bókarinnar: Fólk vill vera heima hjá sér – það kýs frekar að fá að vera heima hjá sér en að verða ódauðlegt. 

Hér er af ásetningi ekki rætt um það sem máli skiptir

Ísland er samkvæmt nýjustu fréttum dýrasta land í heiminum. Þetta kom fram hjá fréttamiðlinum Business Insider í liðinni viku. Kaupmáttur Íslendinga er hins vegar minni en annarra ríkja sem ná inn á topp 10 listann. Ég veit ekkert hvaða vísindi eru á bak við þessar tölur en þetta þýðir að af tíu dýrustu ríkjum heims sé Ísland dýrast en um leið sé fólkið þar fátækast af þessum sömu tíu ríkjum. Íslendingar eru með öðrum orðum þjóð sem á ekki fyrir því að búa í sínu eigin landi. 

Við höfum oft heyrt þessar fréttir áður, ekki satt, kannski ekki þetta með kaupmáttinn, en þessi linnulausa dýrtíð er náttúrulega ekkert nýtt. Og eins og venjulega gerist ekki neitt og það kvikna engar umræður. Það birtist ein frétt á vef RÚV: Góðir hálsar, þessir 103 þúsund ferkílómetrar hérna í Norður-Atlantshafi eru dýrasti staður í heimi. Og fólkið sem býr þar á ekki fyrir því. Og síðan er engra spurninga spurt. Það eru engin spurningarmerki sett við þetta. Þessum fréttum, sem berast reglulega, er ekki fylgt eftir í fjölmiðlum og á hinu pólitíska sviði. Þær sogast hratt og örugglega niður forsíðurnar og ofan í hyldýpi vefmiðlanna þar sem þær gleymast um leið. Svona réttnefndar hörmungarfréttir vekja engin viðbrögð á þingi eða innan stjórnmálaflokka og þá rifjast upp fyrir manni sú góða og trausta speki, að það er svo miklu fleira sem sameinar stjórnmálamenn en sundrar þeim, til dæmis það að þiggja ofurlaun frá almenningi.

Þessi hnöttur sem við búum á er helvíti stór og rúmar mikið af fólki – hvað er það við Ísland, af öllum stöðum, sem verðskuldar þau örlög að það sé hvergi á jarðkringlunni dýrara að draga fram lífið en hér? Hvað réttlætir þetta? Af hverju þykir þetta sjálfsagt? Þau takmörkuðu svör sem um þetta dularfulla mál fást eru yfirleitt eitthvert muldur um að lífskjör séu svo góð á Íslandi. Jú, jú, þau eru ágæt ef maður í öruggri og vel launaðri vinnu, en það vita það samt allir sem hafa búið erlendis lengur en í hálft ár, að lífið er víða mun þægilegra viðfangsefni en norður í Atlantshafi, ekki síst vegna þess að þar býðst fólki sá valkostur að lifa spart, sem er ekki í boði á Íslandi. 

Er ég að gera of mikið úr þessu? Samkvæmt nýjustu tölum frá stjórnarráðinu búa 50 þúsund Íslendingar erlendis. Ég skora á hlustendur að velta þessari tölu aðeins fyrir sér. 50 þúsund. Það er sirka einn sjöundi partur þjóðarinnar, og þá eru ótaldir allir sem búa úti en eru skráðir heima. Það er forvitnilegt að ímynda sér sömu tölfræði fyrir aðrar þjóðir. Skyldu 10 milljónir Breta búa erlendis, 50 milljón Bandaríkjamenn, 900 þúsund Danir, 196 milljónir Kínverja? Nei, ég held að þetta sé hlutfall sem þekkist hvergi annars staðar. Þetta er með algjörum ólíkindum, og eins og svo margt sem er lyginni líkast á Íslandi, sést þetta varla í opinberri umræðu. 

Ég þekki sjálfur heilan mökk af ungu fólki sem hefur flúið Ísland, kannski ekki einungis af efnahagslegum ástæðum, en það er svo sannarlega ein mikilvægasta forsendan. Hérna er ég ekki að tala um neina skiptinema, heldur fólk sem hefur raunverulega sagt sajonara og farið. Og ef þú gengur á þetta fólk og spyrð það um ástæðuna, þá er svarið yfirleitt að því finnst Ísland ólífvænlegur staður, það sér ekki fyrir sér að geta átt gott líf þar, og ofbýður íslensk hugmyndafræði; það er að segja hvernig samfélagið er rekið – sem aftur er ein af meginástæðum þess að það er svona ævintýralega dýrt að búa þar – sem og vitaskuld allar haldlausu lygarnar sem þessi hugmyndafræði er smíðuð úr.

Fólk sem ég þekki sem vinnur mikið með eldri borgurum segir mér jafnframt að það sé ótrúlega algengt að þetta fólk sé á leiðinni í burtu frá Íslandi, ekki af því það vill fara, heldur af því það neyðist til þess. Það einfaldlega á ekki fyrir því að búa í dýrasta landi í heimi. Sjálfur gleymi ég því aldrei þegar ég sá lífeyrisgreiðslur afa míns heitins, og sá þar svart á hvítu hverju það skilar að gera ekkert annað en að vinna og borga skatta á Íslandi í hálfa öld.

Fyrir hvern er þetta land? – Fríhöfnin sem sannleikur

Fyrir hvern er Ísland þá eiginlega? Það virðist í grófum dráttum vera fyrir miðaldra launafólk sem er tilbúið til þess að slíta sér út áratugum saman að þjóðlegum sið og svo ungt fólk sem á foreldra sem geta keypt handa því húsnæði. Ég veit að ég hef minnst á þetta áður, en mér finnst Fríhöfnin alltaf vera lítið en afskaplega skýrt dæmi um það hvernig Ísland er. Fríhöfnin er Ísland í smásjá. Hún er sérstök búð fyrir vel stætt fólk þar sem það getur keypt sér munaðarvörur á allt öðru verði en fátækt fólk getur nokkurn tímann látið sig dreyma um. Á sama tíma er síðan linnulaust logið að þessu fátæka fólki úr öllum áttum að ástæða þess að þessar vörur séu svona dýrar á almennum markaði sé vegna lýðheilsu. Það sé með öðrum orðum því sjálfu fyrir bestu! Hið sanna er hins vegar að það er einfaldlega verið að mergsjúga þetta fólk, vegna þess að það er hið ósagða, raunnverulega hlutverk þess í þjóðfélaginu – að slíta sér út og láta síðan mergsjúga sig. Um þetta fyrirkomulag ríkir enginn efi, um það er aldrei fjallað, um það er aldrei rætt. 

Ekki veit ég hvað vínglasið kostaði á barnum í Íþöku eða hvernig var að kaupa í matinn þar. En ég veit að Ódysseifur vildi ekki komast heim til sín af því lífskjörin þar voru svo góð. Nei, hann hefði getað verið ódauðlegur og lifað í vellystingum til eilífðar með Kalypsó. Hann vildi komast heim, vegna þess að fólk vill almennt og yfirleitt geta verið heima hjá sér. Þetta er ein af ástæðum þess að gestrisni þótti svo mikilvæg dyggð í klassíska heiminum. Fólki líður best heima hjá sér og þess vegna áttu að taka vel á móti aðkomufólki, þeim sem hafa yfirgefið heimili sín – þetta er innsæi og viska sem evrópskir stjórnmálamenn gætu lært sitthvað af í dag. 

Það er sífellt verið að lýsa yfir óvissuástandi á Íslandi vegna veðurs eða jarðhræringa. Gul viðvörun, appelsínugul, rauð. Hið sama ætti með réttu að gera fyrir önnur svið þjóðfélagsins. Það er alltaf appelsínugul viðvörun í tilvistarmálum fyrir þorra manna á Íslandi. Það er óvissuástand á leigumarkaði, á húsnæðismarkaði, í verðbólgu- og verðlagsmálum, í afborgunarmálum, já, í hversdagslífinu almennt og yfirleitt. Það er enginn stöðugleiki nokkurs staðar.

Afraksturinn er sá að stór hluti íslensku þjóðarinnar getur ekki verið heima hjá sér, af því föðurland þess, móðurjörð þess, er dýrasti staður á jarðkringlunni. Fyrir ungt fólk getur það kannski á vissan hátt verið spennandi að flýja, en að hrekja eldri borgara úr landi, er viðbjóðslegt og óafsakanlegt. Ætlar virkilega enginn að verja hagsmuni þessa fólks?

Tengdar fréttir

Innlent

Ísland dýrast í heimi

Pistlar

Ekkert er verra en góðar minningar

Pistlar

Hvar eru þessir frjálsu markaðir?

Pistlar

Af hverju er Ísland svona ógeðslegt?