
Ísland ekki lengur umsóknarríki að ESB
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra afhenti nú rétt klukkan sex að íslenskum tíma formanni ESB, sem er utanríkisráðherra Lettlands, bréf þess efnis. Þetta kom fram í kvöldfréttum útvarps.
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður, ræddi við Gunnar Braga nú skömmu fyrir klukkan sex. „Við teljum að þessu máli sé lokið og ef menn vilja sækja um að nýju þá verði að leita til þjóðarinnar,“ segir utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi segir að þeir hafi verið í samskiptum við ESB undanfarnar vikur. Fundurinn í dag hafi verið góður, báðir aðilar hafi skilning á þessari stöðu og þetta sé leið sem sé eðlileg. „Þeir þekkja ferlið sem hefur verið í gangi á Íslandi - þetta er í rauninni bara „common sense“ - ef maður leyfir sér að sletta.“
Gunnar Bragi segir að bréfið útskýri stöðuna. „Það sjá það allir að málið er komið á endastöð.“ Hann segir viðræðurnar hafa verið búnar, ekkert hafi gerst í langan tíma. „Við erum bara að loka þessu ferli,“ segir ráðherra.