Ísfiskur á Akranesi gjaldþrota

07.02.2020 - 16:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fiskvinnslufyrirtækið Ísfiskur hf. hefur óskað eftir því að vera tekið til gjaldþrotaskipta. Rúmir fjórir mánuðir eru síðan öllu starfsfólki var þar sagt upp.

Ísfiskur sagði hátt í 60 manns upp störfum í lok september á síðasta ári með fyrirvara um að fyrirtækinu tækist að endurfjármagna sig. Ísfiskur leitaði þá til Byggðastofnunar um að fá lán til þess.

Stofnunin samþykkti að veita lán með skilyrðum, sem Ísfiskur reyndi að uppfylla undanfarna mánuði.

Samkvæmt frétt á vef Skessuhorns voru nær öll skilyrði uppfyllt en lánveitingin féll að endingu á því að ekki tókst að útvega fé fyrir bygginguna sem fyrirtækið starfaði í á Akranesi.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir að enn sé verið að taka saman nákvæmlega hversu mikið fyrirtækið skuldar fyrrum starfsfólki, meðal annars í laun og orlofsgreiðslur. Það séu þó hátt í 40 milljónir. Hann segir þá að Verkalýðsfélagið ætli að lána félagsmönnum sem störfuðu hjá Ísfiski 250 þúsund krónur með kröfu í ábyrgðasjóð launa. Það hefur ekki verið hægt hingað til þótt rúmir fjórir mánuðir séu frá uppsögnum þar sem Ísfiskur varð að óska eftir gjaldþrotaskiptum svo hægt væri að gera kröfu í ábyrgðasjóðinn.

Nú sér því fyrir endann á 39 ára starfsemi Ísfisks. Fyrst í Kópavogi og svo á Akranesi frá 2018.

Albert Svavarsson, framkvæmdastjóri Ísfisks, vildi ekki veita fréttastofu viðtal.

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi