Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ísbúð fær ekki að bera nafnið Eden

19.06.2019 - 16:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Maður reynir alltaf að sjá tvær hliðar á öllum málum,“ segir Davíð Kjartansson, annar eiganda ísbúðarinnar í Sunnumörk. Bæjarstjórn Hveragerðis hafnaði beiðni eigenda um að hún fengi að bera nafnið Eden.

Virða niðurstöðu bæjaryfirvalda

„Við unum niðurstöðu bæjaryfirvalda, við erum búin að ræða þetta mikið og virðum ákvörðunina. Nú tekur við að finna nýtt nafn og halda áfram gleðinni,“ segir Davíð, en ísbúðin var nafnlaus þegar hún var opnuð. Hann segir að málið taki ekki úr þeim kjarkinn og að þau séu jákvæð, en hann og Íris Tinna Margrétardóttir eru eigendur ísbúðarinnar. 

Nafnið sé sérstakt

Hann segir niðurstöðuna ekki koma á óvart enda hafi þau hálfpartinn búist við þessu. Hann segir Eden-nafnið sérstakt og bæjaryfirvöld hafi eflaust góðar ástæður fyrir niðurstöðunni.

Hveragerðisbær keypti nafnið og vörumerkið Eden árið 2010 og er það skráð hjá Einkaleyfisstofu. Það stendur til að nafnið verði nýtt, ef önnur starfsemi sem líkist þeim gamla, verði sett á laggirnar. 

Fram kemur í tillögu meirihluta bæjarstjórnar að þarft og jákvætt sé að ný ísbúð hafi verið opnuð í Hveragerði. Sá rekstur sé hins vegar ekki í þeim anda sem fólk tengi við Eden. Greint var frá þessu í Morgunblaðinu í gær.

Ekki hlutverk bæjarins að ákveða hver fái nafnið

Fulltrúar Okkar Hveragerðis töldu að bærinn ætti ekki að hlutast til um hvað einkafyrirtæki í sveitarfélaginu mættu heita. Það væri ekki hlutverk bæjarins að eiga vörumerki og úthluta því „til aðila sem meirihluti bæjarstjórnar telur þóknanlegt til að bera heitið“.

Fulltrúarnir lögðu til að bærinn seldi vörumerkið Eden og þeir sem hefðu áhuga á að kaupa það byðu í það.

Samkvæmt upplýsingum frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er ekkert því til fyrirstöðu að stjórnvald, sem er lögaðili, eigi og sýsli með vörumerki.