Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Isavia greiddi fjölskylduferðir forstjóra

10.03.2015 - 20:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Ef skoðun Ríkisendurskoðunar er þessi, þá verðum við að fara eftir henni,“ sagði Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia í Kastljósi í kvöld. Vísaði hann þá til þess að Ríkisendurskoðun teldi ekki eðlilegt að greiða ferðakostnað maka opinberra starfsmanna eins og Isavia hefur gert.

Isavia ohf hefur greitt fleiri hundruð þúsund krónur vegna ferðalaga eiginkonu forstjórans á undanförnum árum. Slíkt er andstætt reglum félagsins sjálfs og er ekki eðlilegt að mati Ríkisendurskoðunar. Isavia neitaði því að slíkt tíðkaðist fyrst þegar Kastljós óskaði upplýsinga um málið.

Isavia hefur einnig greitt ferðakostnað annarra fjölskyldumeðlima stjórnenda félagsins, en í svari til Kastljóss segir Isavia að hann hafi verið endurgreiddur. Isavia neitaði þó að svara því hvort kostnaðurinn hafi verið endurgreiddur fyrir eða eftir að Kastljós sendi upphaflega fyrirspurn um málið.

Forstjórinn upplýsti svo í Kastljósi í kvöld að í það minnsta einu tilfelli hefði ekki verið endurgreitt fyrr en eftir fyrirspurn Kastljóss um málið. Það var vegna kostnaðar við ferðar dóttur forstjórans frá því fyrir tveimur árum. Og jafnvel þó sú ferð hafi nú verið endurgreidd og fleiri slíkar vegna ferðalaga fjölskyldumeðlima stjórnenda Isavia, sem Isavia greiddi, telur Ríkisendurskoðun það ekki eðlilegt, jafnvel þó kostnaður sé endurgreiddur. Það sé enda ekki hlutverk opinberra fyrirtækja að stunda lánastarfsemi.

Fjallað var um málið í Kastljósi í kvöld og rætt við Björn Óla Hauksson forstjóra Isavia.

Greiða ferðakostnað þrátt fyrir reglur sem segja annað
Samkvæmt upplýsingum sem Kastljós aflaði sér hefur Isavia greitt ferðakostnað fyrir maka og börn stjórnenda Isavia í fjölmörg skipti á undanförnum árum. Í svörum Isavia til Kastljóss var í fyrstu neitað að Isavia greiddi kostnað vegna ferða annarra en starfsmanna, enda væri það andstætt reglum fyrirtækisins. Í þeim segði einfaldlega: „Ferðakostnaður maka starfsmanna er ekki greiddur“

Þrátt fyrir þessar reglur koma þó fram upplýsingar um að Isavia hafi greitt flugmiða maka og fjölskyldu forstjóra og tveggja annara stjórnenda Isavia. Alls eru þetta á annan tug flugferða, flestar til Kaupmannahafnar og Lundúna en einnig til Bandaríkjanna. Um er að ræða samtals fjóra flugmiða fyrir eiginmenn tveggja stjórnenda Isavia, til Lundúna og Bandaríkjanna 2012 og 2013. Flestir farmiðanna eru vegna eiginkonu forstjórans, samtals 10 miðar frá 2010. Auk þess kemur fram að Isavia hafi greitt  , í báðum tilfellum í tengslum við ferðir forstjórans og eiginkonu hans til Lundúna eða Kaupmannahafnar og heim aftur með þriggja vikna milli bili sumarið 2011 og sumarið 2012.

Þegar Kastljós bar þessar upplýsingar undir talsmann Isavia var því svarað til að Isavia hefði jú greitt ferðakostnað eiginkonu forstjórans. Í hinum tilvikunum hefðu miðarnir verið keyptir af Isavia í tengslum við ferðalög stjórnendanna en síðan endurgreiddir.

„Almenna reglan hjá Isavia er sú að ferðakostnaður maka starfsmanna er ekki greiddur. Þó hefur verið gerð undantekning frá henni í nokkur skipti, þegar ferðakostnaður maka forstjóra hefur verið greiddur. Um slíkar undantekningar gilda engar sérstakar reglur, en þess í stað hafa slíkar ákvarðanir verið teknar að vel athuguðu máli í samráði við stjórnarformann Isavia.

Frá árinu 2010 hefur Isavia greitt ferðakostnað maka forstjóra vegna fimm ferða sem hún fór með honum á vegum Isavia. Heildarkostnaður Isavia vegna þeirra nemur alls 696.273- krónum. Í þeim ferðum sem dóttir forstjóra hefur verið með í för þá hefur forstjóri í öllum tilfellum greitt sjálfur fyrir fargjöld hennar.Í þeim tilvikum sem ákveðið hefur verið að Isavia beri kostnað við ferðir maka forstjóra, hefur verið um að ræða þátttöku á viðburðum þar sem það hefur verið metið mikilvægt að maki taki þátt ásamt forstjóra. Um er að ræða viðburði sem gegna mikilvægu hlutverki í því að styrkja tengslanet forstjóra, og þar með Isavia, í þeim alþjóðlega flugbransa sem Isavia starfar í.

Og varðandi greiðslur ferðakostnaðar annarra maka stjórnenda sem fram komu í yfirlitinu sagði:

 „Almennt þegar makar ferðast með starfsmönnum er reynt að haga málum þannig að maki er bókaður með starfsmanni í gegnum Isavia en greiðsla fyrir flugmiða maka er greiddur beint með kreditkorti viðkomandi starfsmanns eða maka. Í einhverjum tilfellum hefur greiðslan farið í gegnum Isavia í tengslum við bókunina, en í öllum tilfellum hefur það verið endurgreitt til Isavia, annað hvort með beinni millifærslu eða frádrætti frá launum.  Þá er ekki óalgengt að starfsmenn nýti tækifærið þegar þeir ferðast erlendis á vegum Isavia að þeir taki sér samhliða því frí erlendis. Það er þó alveg ljóst að Isavia ber engan kostnað af slíkum fríum, hvorki vegna starfsmanns eða maka.“

Kastljós óskaði í framhaldinu eftir því að fá staðfestingar á því að kostnaðurinn hefði verið endurgreiddur og þá hvenær. Í því svari Isavia segir  

„Engar útistandandi skuldir starfsmanna séu við Isavia vegna kaupa á farseðlum.” Í svari Isavia sagði jafnframt að fyrirtækið vilji ekki fara dýpra ofan í eintaka færslur í kerfum fyrirtækisins. Isavia neitar því að upplýsa um hvort miðarnir hafi verið endurgreiddir fyrir eða eftir að Kastljós spurðist fyrir um málið.

Veitti leyfi fyrir ferðakostnaði eiginkonu
Þórólfur Árnason, fyrrverandi stjórnarformaður Isavia, staðfesti í samtali við Kastljós að hafa veitt leyfi fyrir því að Isavia greiddi ferðakostnað eiginkonu forstjórans, á þeim tíma sem hann var stjórnarformaður. Að sögn Þórólfs hafi þetta verið gert til að koma til móts við forstjórann sem hafi átt inni sumarfrí sem hann hafi átt erfitt með að nýta vegna anna. Auk þess hafi verið litið svo á að þessi ráðstöfun væri hluti af því að koma til móts við að forstjórinn hefði tekið á sig launalækkun eftir hrun. Auk þess hafi stjórn Isavia talið ákvörðun Kjararáðs um laun forstjórans í litlu samræmi við þá ábyrgð og viðveru sem fylgdi starfinu. Þórólfur segist ekki hafa litið svo á að um væri að ræða mikið frávik frá þeim reglum sem almennt gilda hjá Isavia. Eins og áður segir er reglan fortakslaus. Fyrirtækið greiðir ekki ferðakostnað maka starfsmanna.

Svörum Isavia og stjórnarformannsins ber þannig ekki saman um ástæður þess að vikið er út af reglum fyrirtækisins. Í öðru tilvikinu er því haldið fram að ferðirnar séu hluti af sumarfríi forstjóra og þannig kjaramál, en í hinu tilvikinu er sagt að ferðir eiginkonunnar séu nauðsynlegar vegna viðburða sem forstjórinn sækir vegna vinnu sinnar.

helgis's picture
Helgi Seljan
Fréttastofa RÚV