Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Isavia bregst við áhrifum COVID-19

20.03.2020 - 19:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Isavia ætlar að koma til móts við flugfélög og verslunarrekendur í flugstöð Leifs Eiríkssonar vegna þeirra áhrifa sem COVID-19 faraldurinn hefur á starfsemi þeirra.

Farþegum um Keflavíkurflugvöll fækkar ört þessa dagana og mun fækka enn frekar eftir því sem fleiri lönd taka upp strangar ferðatakmarkanir. Verslanir í Leifsstöð eru enn opnar en eðli málsins samkvæmt hafa þær dregið verulega úr umsvifum sínum.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að félagið hafi gripið til aðgerða til að koma til móts við þá sem stunda rekstur á Keflavíkurflugvelli. „Greiðslufrestir hafa almennt verið framlengdir til loka maímánaðar og samhliða því hefur verið reynt af fremsta megni að gefa þeim ýmiskonar sveigjanleika til að eiga auðveldara um vik að komast í gengum næstu mánuði,“ segir Guðjón.  

Þá mun Isavia veita fullan afslátt af notendagjöldum flugfélaga á Keflavíkurflugvelli til 31. maí næstkomandi, með það að markmiði að auðvelda flugfélögum að taka ákvörðun að fljúga áfram um flugvöllinn á þessum óvissutímum. „Þessi afsláttur kemur tímabundið í staðinn fyrir hefðbundið hvatakerfi flugvallarins.“

Magnús Geir Eyjólfsson