Íransher viðurkennir að hafa grandað farþegaþotunni

11.01.2020 - 04:56
Deilur og stríð · Erlent · Asía · Íran · Kanada · Úkraína
epa08118402 (FILE) - A view of victims possessions around the wreckage after an Ukraine International Airlines Boeing 737-800 carrying 176 people crashed near Imam Khomeini Airport in Tehran, killing everyone on board, in Shahriar, Iran, 08 January 2020 (reissued 11 January 2020). According to media reports on 11 January 2020, the Iranian military released a statement claiming that Ukraine International Airlines flight PS752 was shot down due to 'human error.'  EPA-EFE/ABEDIN TAHERKENAREH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Íransher viðurkenndi í morgun að hafa skotið niður úkraínsku farþegaþotuna sem hrapaði í útjaðri Teheran í vikunni með 176 manns innanborðs. Það hafi verið óviljaverk sem rekja megi til mannlegra mistaka, segir í tilkynningu frá hernum. Þeir sem ábyrgðina beri hafi talið farþegaþotuna „óvinavél" og því skotið hana niður til að hindra það sem þeir töldu yfirvofandi árás. Forseti og utanríkisráðherra Írans biðjast fyrirgefningar og boða ítarlega rannsókn á þessum „ófyrirgefanlegu mistökum.“

„Mannleg mistök á hættutímum“

Í fréttatilkynningu hersins, sem ríkisfréttastofan IRNA birti í morgunsárið, segir að mistökin hafi verið gerð þegar mikil ógn steðjaði að Íran frá óvinaþjóðum.  Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, ítrekaði þetta um leið og hann baðst auðmjúklega afsökunar og fyrirgefningar og vottaði öllum hlutaðeigandi hluttekningu fyrir hönd írönsku þjóðarinnar, skömmu eftir að tilkynning hersins birtist.

"Sorgardagur" skrifaði Zarif á Twitter. „Mannleg mistök á hættutímum, sem rekja má til ævintýramennsku Bandaríkjamanna, leiddu til þessa hörmungaratburðar,“ segir Zarif, og vísar þar til árásar Bandaríkjamanna á herflugvöll við Bagdad, þar sem íranski yfirhershöfðinginn Kassim Soleimani var ráðinn af dögum fyrir rúmri viku.

Aðeins örfáum klukkustundum áður en úkraínska farþegaþotan var skotin niður höfðu Íranar gert flugskeytaárás á tvo flugvelli í Írak, þar sem Bandaríkjamenn eru með bækistöðvar, í hefndarskyni.

„Við hörmum þetta mjög og biðjumst innilega afsökunar og fyrirgefningar um leið og við vottum þjóð okkar, fjölskyldum fórnarlambanna og öðrum þjóðum sem eiga um sárt að binda okkar dýpstu hluttekningu.“

Forsetinn heitir sakamálarannsókn

Hassan Rouhani, Íransforseti, brást einnig við á Twitter. „Íslamska lýðveldið Íran harmar mjög þessi hörmulegu mistök,“ skrifar forsetinn. „Innanhússrannsókn Íranshers hefur leitt í ljós að flugskeyti, sem því miður var skotið á loft fyrir mannleg mistök, hafi orsakað skelfilegt hrap úkraínsku flugvélarinnar og dauða 176 saklausra manneskja.“ 

Og Rouhani boðar afleiðingar þessa: „Rannsókn heldur áfram svo finna megi og sækja til saka [þá sem ábyrgð bera] á þessum mikla harmleik og ófyrirgefanlegu mistökum.“

Flest sem fórust írönsk eða af írönskum uppruna

82 Íranar, 63 Kanadamenn, flestir af írönskum uppruna, 11 Úkraínumenn, 10 Svíar, fjórir Afganar, þrír Þjóðverjar og þrír Bretar fórust með vélinni, sem hrapaði örfáum mínútum eftir flugtak í Teheran.

Grunur kviknaði snemma um að flugskeyti hefði grandað vélinni og myndskeið sem birt hafa verið af síðustu sekúndunum af flugi hennar renndu stoðum undir þá kenningu. Íranar þvertóku fyrir að þetta gæti verið raunin, þar til nú. 

Grand úkraínsku vélarinnar er mannskæðasta slys sem orðið hefur í íranskri flugsögu síðan í júlí 1988. Þá grandaði Bandaríkjaher farþegaþotu Iran Air fyrir mistök, þar sem hún var á flugi yfir Persaflóa. 290 manns fórust með þeirri vél.

Fréttin var uppfærð klukkan 05.30