Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íranar hafna ásökunum evrópskra leiðtoga

24.09.2019 - 05:36
epa07864553 Iranian Foreign Minister Mohammad Javad Zarif responds to questions from the media as he departs from the 2019 Climate Action Summit which is being held in advance of the General Debate of the General Assembly of the United Nations at United Nations Headquarters in New York, New York, USA, 23 September 2019. World Leaders have been invited to speak at the event, which was organized by the United Nations Secretary-General Antonio Guterres, for the purpose of proposing plans for addressing global climate change. The General Debate of the 74th session of the UN General Assembly begins on 24 September.  EPA-EFE/PETER FOLEY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Íranar fordæma sameiginlega yfirlýsingu leiðtoga Þýskalands, Frakklands og Bretlands um að þeir beri ábyrgð á drónaárás sem gerð var á olíuvinnslustöðvar í Sádi Arabíu á dögunum og hafna þeirri ásökun fortakslaust. Utanríkisráðherra Írans, Mohammad Javad Zarif, sakar þau Angelu Merkel, Emmanuel Macron og Boris Johnson, um að „herma eftir fáránlegum ásökunum Bandaríkjanna eins og páfagaukar."

Í yfirlýsingu Merkels, Macrons og Johnsons segir að þau telji augljóst að Íranar séu að baki árásinni á Khurais-olíuvinnslusvæðið og stærstu olíuhreinsunarstöð heims, Abqaiq, hinn 14. þessa mánaðar, engar aðrar sennilegar skýringar sé að finna. Engu að síður, segir í yfirlýsingunni, hyggist þau standa við sinn hlut í kjarnorkusamkomulaginu við Írana frá 2015, hér eftir sem hingað til.

Átján drónum og sjö eldflaugum var skotið á olíuvinnslusvæðin og lamaði árásin um helming af olíuframleiðslu og -útflutningi Sádi-Araba. Uppreisnarsveitir Húta lýstu árásinni fljótlega á hendur sér, en Sádi-Arabar og Bandaríkjamenn gera lítið með þær yfirlýsingar og segja Írana hina raunverulegu sökudólga. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV