Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Innlyksa ferðamenn fengu inni á Borg í Grímsnesi

11.12.2019 - 09:17
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Beiðnum um aðstoð vegna veðurofsans rigndi yfir björgunarsveitir á Suðurlandi í nótt.  Enn er hvasst á svæðinu en Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli, segir að björgunarstörf hafi almennt gengið vel.

„Það hefur verið mjög hvasst hjá okkur vestan megin í umdæminu, í Árnessýslunni og Rangárvallasýslu. Það var svolítið tjón á Selfossi í gærkvöldi, foktjón, og þarna í vesturhlutanum. Það var verið að aðstoða fólk við að komast í hús og á milli húsa. Það voru verkefnin í sjálfu sér,“ segir Sveinn. 

Beiðnum um aðstoð hafi fækkað verulega eftir miðnætti og fólk haldið sig að mestu innandyra. 

„Við fundum það að það var ekki mikið af fólki á ferli. Við óskuðum eftir því að Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði yrði lokað snemma í gærmorgun þannig að við fengjum ekki holskefluna yfir okkur úr Reykjavík. Það virðist hafa haldið, það var ekki mikið af ferðamönnum á svæðinu á gullhringnum. Við vorum ekki að eiga við mikinn fjölda af fólki sem var í uppsveitunum.“

Um tíu innlyksa ferðamenn gistu i fjöldahjálparstöð á Borg í Grímsnesi. Sveinn segir veðrið það versta sem hann muni eftir um langa hríð. 

„Það er svolítið langt síðan að maður man eftir svona vondu veðri. Það var mjög hvasst og í uppsveitum var gríðarlega hvasst og mjög blint. Þannig að fólk bara lenti í vandræðum.“

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV