Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Innlend framleiðsla á undanhaldi

14.09.2019 - 19:54
Mynd: Slow food youth network iceland / Slow food youth network iceland
Hlutdeild innlendrar framleiðslu í grænmetisneyslu hefur hrapað á undanförnum árum. Garðyrkjubændur hafa áhyggjur af þróuninni og kalla eftir stöðugleika í rekstrarumhverfi.

Garðyrkja stendur undir um 10 prósentum af verðmæti búvöruframleiðslu í landinu og er veltan um sex milljarðar króna á ári, fyrir utan sölu, dreifingu og úrvinnslu.

Í nýútkominni skýrslu samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga kemur fram að hlutdeild innlendrar framleiðslu á innanlandsmarkaði hafi fallið um 23 prósentustig á tímabilinu 2010 til 2018. Það er úr 75 prósentum niður í 52 prósent.

Gúrkur og gulrófur eru framleiddar nær alfarið hér á landi og innlent salat vinnur verulega á líkt og sést meðfylgjandi myndbandi. En í öðrum tegundum fer hlutur innlendrar framleiðslu minnkandi, sérstaklega á tómötum, gulrótum og hvítkáli.

Hlutdeildin segir ekki alla söguna því magnið skiptir líka máli. Á sama tíma og neysla grænmetis eykst þá fer framleiðsla innanlands sífellt minnkandi.

Framleiðsla á tómötum hérlendis hefur dregist saman um 400 tonn á meðan innflutningur hefur aukist um eitt þúsund tonn. Minna er framleitt af íslensku blómkáli og spergikáli, þrátt fyrir aukna neyslu á báðum tegundum sem rekja má til stóraukins innflutnings. Sem fyrr segir sker salatframleiðsla sig verulega úr því hér heima hefur framleiðslan stóraukist á meðan innflutningur hefur dregist lítillega saman. 

Bændur geta framleitt meira

Gunnar Þorgrímsson, formaður Sambands garðyrkjubænda, segir sveiflur eðlilegar í útirækt, enda uppskera háð veðri og vindum. „En varðandi aðra framleiðslu þá höfum við talsverðar áhyggjur af því að við skulum ekki fullnægja markaðnum meira heldur en við erum að gera.“

Gunnar segir garðyrkjubændur vel geta aukið framleiðslu sína. „Við getum alveg framleitt meira í því sem við erum að gera. Það er óplægður akur í ýmsum öðrum tegundum líka en það sem okkur skortir er kannski fyrirsjáanleiki, bæði í raforkuverði og hvert ætla stjórnvöld að stefna í aðflutningsgjöldum og tollum á innfluttu grænmeti.“

 

Magnús Geir Eyjólfsson