Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Innflytjendur á Íslandi mæta illa á kjörstað

Mynd: Háskólinn á Akureyri / Háskólinn á Akureyri
Þátttaka innflytjenda í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum hér á landi er mun minni en innfæddra, samkvæmt nýrri rannsókn. Kjörsókn þeirra er áberandi betri utan suðvesturhornsins og þeir innflytjendur sem bera lítið traust til Alþingis kjósa mun frekar.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Háskólans á Akureyri um kosningaþátttöku innflytjenda á Íslandi í alþingiskosningum 2017 og sveitarstjórnarkosningum 2018. Skýrslan er unnin upp úr spurningakönnun um aðlögun innflytjenda á Íslandi og tóku 2211 innflytjendur aldrinum 18-80 ára þátt í könnuninni. Það eru um 5% allra innflytjenda sem áætlað er að búsettir séu á Íslandi.

Ríflega fjórfalt minni kjörsókn hjá innflytjendum

Þegar kjörsókn þeirra er borin saman við kjörsókn allra annarra kosningabærra í landinu sést að hún var nærri tvöfalt minni í sveitarstjórnarkosningunum. Og í alþingiskosningunum haustið áður er munurinn ríflega fjórfaldur. Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við HA og höfundur skýrslunnar, segir svipaðar vísbendingar að sjá í sambærilegum könnunum í nágrannalöndunum. „Þetta virðist bara ríma við þær niðurstöður. Þannig að það er ekkert séríslenskt hér á ferð.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Innflytjendur utan suðvesturhornsins kjósa ferkar

Og það virðist skipta máli hvar á landinu innflytjendur búa þegar kjörsókn þeirra er skoðuð. Könnunin sýnir að þátttaka þeirra í kosningum er áberandi best utan suðvesturhornsins. Án þess að það hafi verið rannsakað nánar telur Grétar að þetta geti bent til þess að búseta innflytjenda í fámennari samfélögunum ýti undir þátttöku og afskipti, vegna þess að þeir aðlagist samfélaginu betur. „Ef að þá kjörsókn er mælikvarði á aðlögunina,“ segir hann.

Þeir sem ekki treysta Alþingi kjósa frekar

Það vekur athygli að þeir innflytjendur sem bera lítið eða ekkert traust til Alþingis taka mun frekar þátt í kosningum. Þá er sama hvort kosið er til Alþingis eða sveitarstjórna. Þetta segir Grétar ekki hafa verið rannsakað frekar. „En kannski er það svo að fólk vill frekar hafa áhrif ef það er óánægt. 

Þyrfti að skoða hvort ekki mætti bæta kjörsóknina

En hann segir að með þessarri skýrslu sé verið að staðfesta það sem að einhverju leyti hafi komið fram áður varðandi kjörsókn innflytjenda. Og við því mætti bregðast. „Við þurfum kannski að ráðast í það að skoða hvort það sé ekki hægt að bæta kjörsókn hjá einmitt þessum hópi. Þarna er verk að vinna eins og menn hafa verið að reyna varðandi unga fólkið í landinu, sem lætur ekki nógu mikið sjásig á kjörstöðum þegar það eru kosningar.“

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV