Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Innflytjendum fjölgar áfram á Íslandi

02.12.2019 - 11:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Í ársbyrjun voru 50.272 innflytjendur á Íslandi eða 14,1 prósent mannfjöldans. Í fyrra voru þeir 43.736, eða 12,6 prósent landsmanna. Fjölgun innflytjenda heldur því áfram en frá árinu 2012 hefur þeim fjölgað úr átta prósent mannfjöldans í 14,1 prósent. Samanlagt er fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda 15,6 prósent af mannfjöldanum og hefur það hlutfall aldrei verið hærra.

Þetta kemur fram í nýrri könnun Hagstofu Íslands. Hagstofan flokkar innflytjanda sem einstakling sem fæddur er erlendis og á foreldra sem einnig eru fæddir erlendis, svo og báðir afar og ömmur. Innflytjendur af annari kynslóð eru einstaklingar sem fæddir eru á Íslandi en eiga foreldra sem báðir eru innflytjendur.

Pólverjar eru fjölmennasti hópur innflytjenda hér á landi. Fyrsta janúar í ár voru 19.172 einstaklingar frá Póllandi á Íslandi eða um 38 prósent allra innflytjenda. Þar á eftir koma einstaklingar frá Litháen og Filippseyjum. 

Tæplega 64 prósent allra innflytjenda á landinu búa á höfuðborgarsvæðinu. Hlutfall innflytjenda af mannfjölda var mest á Suðurnesjum en þar voru 26,6 prósent innflytjenda af fyrstu eða annarri kynslóð. Næsthæst er hlutfallið á Vestfjörðum þar sem nítján prósent mannfjöldans voru innflytjendur. Lægst er hlutfallið á Norðurlandi vestra en þar voru 7,5 prósent mannfjöldans innflytjendur.

Færri fá íslenskt ríkisfang en fleiri fá alþjóðlega vernd

Í fyrra fengu 569 einstaklingar íslenskan ríkisborgararétt og er það nokkur fækkun frá fyrra ári þegar 637 einstaklingar fengu íslenskt ríkisfang. Af þesum 569 sem fengu íslenskt ríkisfang höfðu flestir verið áður með pólskt ríkisfang ,eða 149, og næst flestir með ríkisfang frá Sýrlandi, eða 57.

Í fyrra fengu 247 einstaklingar alþjóðlega vernd samanborið við 226 árið á undan. Aldrei hafa fleiri fengið slíka vernd á Íslandi. Flestir þeirra höfðu íraskan ríkisborgararétt og þar á eftir komu flóttamenn með sýrlenskt ríkisfang.