Innflutningur á fersku kjöti og eggjum nú leyfilegur

05.01.2020 - 20:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður Landssambands kúabænda segir að Íslendingar verði nú að treysta á evrópska eftirlitskerfið sem dæmi sýni að virkar ekki. Ný lög um innflutning á kjöti tóku gildi um áramót. Neytendasamtökin segja neytendur betur setta með nýjum lögum svo lengi sem þeir séu upplýstir um uppruna vörunnar.

Innflutningur er nú leyfður á fersku, ófrosnu kjöti og eggjum frá ríkjum Evrópusambandsins. Sigmar Vilhjálmsson, talsmaður eggja-, kjúklinga- og svínabænda segir að eftirlit sé mun meira og reglur strangari á Íslandi en í Evrópusambandinu og kallar eftir auknu eftirliti; „Kerfið sem við búum við á Íslandi er mjög gott og það þarf að tryggja að kerfið verði jafngott í hinum innfluttu fersku kjötvörum eins og í þeim innlendu“. Hann efast um að eftirlitsaðilar séu tilbúnir undir aukin verkefni og alltof algengt sé að önnur afurð sé í gámum heldur en skjöl segi til um.

Reglur í Evrópu aðrar en á Íslandi

Í stað hefðbundins leyfis fyrir innflutningi er nú krafist viðbótartryggingar með sendingum af eggjum, svínakjöti, nautgripakjöti, kjúklingakjöti og kalkúnakjöti og þurfa skjöl að sýna fram á niðurstöður rannsókna vegna kamfýlóbakter og salmonellu. Án vottunar er innflutningur ekki leyfður. Sigmar segir að tryggja þurfi að vottun sem fylgir vörunni samræmist íslenskum lögum. Sem dæmi nefnir hann að allt að 2600 týpur af salmonellu séu til sem allar séu bannaðar á Íslandi. Það séu hins vegar ekki nema 2-4 týpur bannaðar í Evrópu. 

Innflutningnum fylgi áhætta

Viðbótartryggingar eru partur af aðgerðaáætlun stjórnvalda og þeim er meðal annars ætlað að efla matvælaöryggi og tryggja vernd búfjárstofna. Arnar Árnason, formaður Landssambands kúabænda, segir að áætlunin sé til bóta en ekki fullnægjandi og verið sé að taka áhættu með innflutningnum. „Við þekkjum eggjaskandalinn í Hollandi fyrir tiltölulega fáum árum, við þekkjum mýmörg dæmi um matarsvindl og það er hægt að skrifa þetta á eftirlitskerfi sem eru að bregðast og við erum núna að fara að reiða okkur á þessi eftirlitskerfi. Og það er það sem við höfum áhyggjur af, við bændur“.

Aukið vöruúrval jákvætt ef áhættan er lágmörkuð

Hann segir líklegt að breytingarnar verði mestar fyrst, það verði einhverskonar nýjabrum en neysla á innlendum vörum á móti erlendum vörum nái svo vonandi jafnvægi. Breyting á vöruúrvali sé jákvæð á flestan hátt ef áhættan sem fylgir sé lágmörkuð. Arnar telur möguleika á að sala á íslensku kjöti dragist saman; „Ef ein kjöttegund er flutt inn í miklu magni og kannski höfð án álagningar eða þannig að neytandinn geti fengið hana mjög ódýrt tímabundið þá getur það haft ruðningsáhrif á aðrar greinar landbúnaðarins“.

Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna segist treysta því að þær varúðarráðstafanir sem mælt hafi verið með séu komnar í gagnið. Neytendur séu betur settir með nýjum lögum svo lengi sem þeir séu upplýstir um uppruna vörunnar og geti tekið upplýsta ákvörðun um kaup sín.