Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Innbrotsþjófarnir hugsanlega sendir hingað

04.03.2018 - 19:00
Grunur leikur á að innbrotsþjófar, sem hafa látið greipar sópa á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu, hafi verið sendir til landsins af skipulögðum glæpahópum í Evrópu, jafnvel gegn sínum vilja. Einn hinna handteknu er 17 ára. 

Fjórir sitja í gæsluvarðhaldi grunaðir um innbrot á höfuðborgarsvæðinu en um 60 innbrot hafa verið á höfuðborgarsvæðinu frá í desember. Tveir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald á þriðjudag í síðustu viku og aðrir tveir daginn eftir.

Við húsleit á tveimur stöðum fann svo lögregla töluvert af þýfi, skartgripi og peninga sem talið er nokkurra milljóna króna virði. Einn mannanna er af erlendu bergi brotinn en íslenskur ríkisborgari en hinir þrír eru erlendir ríkisborgarar.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði samband við Karl Steinar Valsson, tengslafulltrúa Íslands hjá Europol og óskaði eftir því að bakgrunnur mannanna yrði kannaður. „Svona samhliða því að við höfum verið að tala við ykkur þá höfum við verið aðstoða höfuðborgarsvæðið út af þessari innbrotahrinu,“ segir Karl Steinar.

Europol býr yfir stórum gagnagrunni og á í náinni samvinnu við lögregluyfirvöld um allan heim. Lögreglan hefur því, með samstarfi við Europol, geta fengið greiningu og upplýsingar sem geta gagnast við rannsóknina. „Nú leikur grunur á að mennirnir sem eru í haldi tengist glæpahópum í Evrópu.“

Þá leikur grunur á að þeir hafi jafnvel verið sendir til Íslands, gegn sínum vilja en einn hinna grunuðu er 17 ára gamall. Rannsóknin snýr því einnig að mansali. Þá er talið líklegt að fleiri innbrotahópar hafi verið sendir hingað til lands,“ segir Karl Steinar.

Leikur þá grunur á að þeir sem eru í haldi og hinir sem enn eru lausir tengist einhverjum glæpahópum í Evrópu? „Það er það sem við erum að kanna,“ segir Karl Steinar.

„Við höfum haft grunsemdir um að það að til Íslands séu að koma jafnvel sendir brotamenn, af skipulögðum brotasamtökum, til þess að brjóta af sér og af því að við vorum að tala um innbrotin áðan að þá er það náttúrlega það sem grunurinn er um, að það sé með þeim hætti.“

Ath. ristjórnar. Þessari frétt hefur verið breytt. Í upphaflega útgáfunni var sagt að hinir grunuðu væru allir erlendir ríkisborgarar. Hið rétta er þrír þeirra eru erlendir ríkisborgarar, þar á meðal sá sem er 17 ára en einn hinna grunuðu er íslenskur ríkisborgari af erlendum uppruna. Beðist er velvirðingar á þessu.
 

 

larao's picture
Lára Ómarsdóttir