Árið 2017 gaf tónlistarkonan Silja Rós út plötuna Silence og lýsir söngkonan henni sjálf sem rólegu indí poppi, eða djass-skotinni folk tónlist. Hún er að leggja hönd á nýja plötu en á henni kveðst hún ætla að feta örlítið nýjar slóðir og færa sig meira út í R&B og sálartónlist. Nýja lagið, All I see, er ljúfsárt ástarlag um erfið sambandsslit. „Það er svolítið skemmtileg saga á bak við nýja lagið mitt. Síðustu ár hef ég nefnilega samið út frá mínum eigin tilfinningum en síðustu fjögur ár hef ég verið svo hamingjusöm að það hefur verið erfitt að semja,“ segir Silja og hlær.
Óvænt heimsókn frá vini hennar reddaði hins vegar ritstíflunni. „Hann sagði mér rosalega áhrifaríka sögu um ástarlíf sitt og hvað allt væri erfitt hjá honum þá stundina. Það hjálpaði mér að semja þetta lag,“ útskýrir hún og bætir við kímin: „Nú er ég bara byrjuð að fá vini mína í heimsókn til að fá innblástur frá þeim.“