Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Innblásin af brösulegu ástarlífi vinar

Mynd: Júlía Margrét Einarsdóttir / RÚV

Innblásin af brösulegu ástarlífi vinar

17.08.2019 - 15:00

Höfundar

Tónlistarkonan og indípopparinn Silja Rós er 25 ára leik- og söngkona sem er nýflutt heim frá Los Angeles. Hún gaf nýverið frá sér splunkunýtt lag sem heitir All I can see.

Árið 2017 gaf tónlistarkonan Silja Rós út plötuna Silence og lýsir söngkonan henni sjálf sem rólegu indí poppi, eða djass-skotinni folk tónlist. Hún er að leggja hönd á nýja plötu en á henni kveðst hún ætla að feta örlítið nýjar slóðir og færa sig meira út í R&B og sálartónlist. Nýja lagið, All I see, er ljúfsárt ástarlag um erfið sambandsslit. „Það er svolítið skemmtileg saga á bak við nýja lagið mitt. Síðustu ár hef ég nefnilega samið út frá mínum eigin tilfinningum en síðustu fjögur ár hef ég verið svo hamingjusöm að það hefur verið erfitt að semja,“ segir Silja og hlær. 

Óvænt heimsókn frá vini hennar reddaði hins vegar ritstíflunni. „Hann sagði mér rosalega áhrifaríka sögu um ástarlíf sitt og hvað allt væri erfitt hjá honum þá stundina. Það hjálpaði mér að semja þetta lag,“ útskýrir hún og bætir við kímin: „Nú er ég bara byrjuð að fá vini mína í heimsókn til að fá innblástur frá þeim.“

Hún segir að þó það sé gaman að koma heim þá finni hún mikinn mun á tónlistarsenunni hér heima og í borg englanna. „Tónlistarsenan þar er stærri og það er meira pláss fyrir fjölbreytileikann, allir geta fundið sitt svið,“ segir hún.

Það er mikið framundan hjá Silju en ásamt því að klára plötuna er hún að taka þátt í leiklistarverkefnum á Íslandi. Hún segist einnig spennt fyrir að koma fram á Melodica festival 30. Ágúst, en það er haldið á Kex hostel og munu margir flottir listamenn koma þar fram ásamt Silju. „Ég verð á landinu allavega fram í október og svo kemur framhaldið í ljós, maður eltir bara verkefnin,“ segir hún að lokum.

Lovísa Rut Kristjánsdóttir ræddi við Silju Rós Ragnarsdóttur í Popplandi og innslagið og nýja lagið má hlýða á í spilaranum efst í fréttinni

Tengdar fréttir

Tónlist

„Þetta eru þrír hljómar og sannleikurinn“

Tónlist

Kokkar sveitatónlist og sveittan grænkeramat

Mynd með færslu
Tónlist

Silja Rós frumsýnir nýtt myndband