Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Innanríkisráðherra: Fráleit lög

28.12.2011 - 19:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Innanríkisráðherra segir lög, sem hamli námsmönnum á Íslandi að fá dvalarleyfi fyrir börn sín, fráleit. Gagnger endurskoðun á útlendingalögunum fer nú fram.

Jóhanna, sem er frá Kólumbíu, hefur búið hér á landi í rúmt ár og lagt stund á nám í íslensku við Háskóla Íslands. Hún hefur ásamt systur sinni og vandamönnum barist fyrir að fá dvalarleyfi fyrir dóttur sína, Yaliönu. En Útlendingastofnun synjaði Yaliönu um dvalarleyfi þar sem einungis þeir sem stunda doktorsnám fá dvalarleyfi fyrir börn sín hér á landi. Yaliana dvelur þó á Íslandi yfir jólin á sérstöku heimsóknarleyfi.

Innanríkisráðherra segir lög, sem hamli því að börn dvelji hjá foreldrum sínum í námi, fráleit. „Ég er ekkert sérstaklega sáttur við þetta ákvæði útlendingalaganna. Það er líka margt annað í þeim lögum sem hefur orðið þess valdandi að við höfum ákveðið að taka allan lagabálkinn til gagngerrar endurskoðunar,“ sagið Ögmundur í viðtali við fréttastofu RÚV.

Ögmundur segir þetta ákvæði þó eiga sér skýringar. Framan af hafi engum námsmönnum verið heimilt að fá dvalarleyfi fyrir börn sín á Íslandi. Því hafi síðan verið breytt árið 2008 þegar  doktorsnemum var gert það mögulegt.

„Þá var hugsunin sú að hvetja fólk til að koma hingað til lands til doktorsnáms og þá var þessi ívilnun gerð. en mér finnst þetta vera úrelt og eins og margt annað í útlendingalögunum það þarf endurskoðunar við,“ sagði Ögmundur.

Ögmundur segir jafnframt að markmiðið með endurskoðun laganna sé að rýmka reglur og líta þá frekar til samfélagslegra gilda en einungis sjónarmiða vinnumarkaðarins þegar ákvörðun um dvalarleyfi er tekin.