Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Innanríkisráðherra braut jafnréttislög

29.08.2012 - 18:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Ögmundur Jónasson braut jafnréttislög þegar hann tók karl fram yfir konu í embætti sýslumanns á Húsavík. Konan var hæfari en karlinn í fjórum hæfnisþáttum af átta og jafnhæf í þremur.

Kærunefnd jafnréttismála hefur úrskurðað að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hafi brotið jafnréttislög þegar hann skipaði karl í embætti sýslumannsins á Húsavík í lok síðasta árs. Kona sem sótti um var ýmist talin jafn-hæf eða hæfari en karlinn að undanskyldu einu atriði.
Ögmundur Jónasson skipaði Svavar Pálsson í embætti sýslumanns á Húsavík. Einn umsækjandinn, Halla Bergþóra Björnsdóttir settur sýslumaður á Akranesi, kærði ákvörðunina. Sýslumenn landsins eru að miklum meirihluta karlar og ef umsækjendur eru jafnhæfir skal ráða þann af því kyni sem er í minnihluta.

Segir úrskurðinn afdráttalausann

Áslaug Árnadóttir, lögmaður Höllu Bergþóru, segir úrskurðinn býsna afdráttarlausan: „Niðurstaða kærunefndarinnar er sú að sá sem skipaður var í starfið sé svona jafnvel hæfari en umbjóðandi minn í einum þætti. Þau standi jafnfætis í þremur en að umbjóðandi minn hafi verið hæfari þeim sem skipaður var í fjórum af þessum átta þáttum.“ 

Ekki verður annað séð en að kærunefndin taki dýpra í árinni hvað varðar brot innanríkisráðherra heldur en í nýlegum úrskurði sínum þar sem hún taldi að forsætisráðherra hefði brotið jafnréttislög.

Ráðherra leitaði ekki álits hjá umsagnaraðilum

Kærunefndin gagnrýnir að innanríkisráðherra vísi í rökstuðningi sínum í meðmælabréf starfsmanna embættisins á Húsavík þar sem Svavar var settur sýslumaður. Ráðherrann hafi hins vegar ekki leitað álits hjá umsagnaraðilum kæranda. Í úrskurði kærunefndarinnar segir: „Kærði hefur ekki svo séð verði lagt málefnalagt mat á hæfni kæranda að þessu leyti og vegið hana á móti hæfni þess er skipaður var.“ Þá verði að gjalda varhug við því að leggja til grundvallar meðmæli undirmanna.

Þá hafi ráðherra, segir í úrskurðinum, bent á persónulega eiginleika þess, sem skipaður var, með tilliti til þess að rekstur embættisins á Húsavík hafi krafist sérstakra hæfileika vegna niðurskurðar og fækkunar starfsmanna. Hins vegar sýni gögn málsins ekki að embættið á Húsavík hafi frekar þurft að taka á slíku en til dæmis embættið á Akranesi þar sem Halla Bergþóra er sýslumaður. Engin gögn liggi fyrir um að hún hafi staðið Svavari að baki hvað það varði.

Sett ofan í við ráðuneytið

Í úrskurðinum segir einnig: „Nauðsynlegt hafi verið að kærði (það er ráðherra) gætti sérstakrar varkárni við huglægt mat á hæfni þar sem umsækjendur hafi staðið nokkuð jafnt að vígi í hlutlægum þáttum.“ Áslaug Árnadóttir segir að lesa megi úr úrskurðinum að það sé sett ofan í við ráðuneytið í ýmsum atriðum. Nú verði metið hvort ástæða sé til að krefjast bóta hjá innanríkisráðuneytinu á grundvelli úrskurðarins.