Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Innanlandsflug fellt niður og raskanir hjá Strætó

13.02.2020 - 10:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Líklegt er að víðtækar raskanir verði á ferðum Strætó á landsbyggðinni og á akstursþjónustu fatlaðs fólks og aldraðra á morgun vegna ofsaveðursins sem spáð er. Allt innanlandsflug hefur verið fellt niður. Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugula viðvörun sem gildir um allt landið.

Allar ferðir hjá flugfélögunum Erni og Air Iceland Connect verða felldar niður á morgun vegna óveðursins. 

Strætó hvetur fólk sem ætlar að nýta sér Strætó á landsbyggðinni til að gera ráðstafanir og ferðast frekar í dag sé þess kostur. 

Aukaferð verður í dag á leið 57 milli Reykjavíkur og Akureyrar. Tvær ferðir verða því eknar í dag, í stað einnar líkt og venjan er á fimmtudögum. 

Í tilkynningu frá Strætó segir að líklegt sé að röskun verði á akstursþjónustu fatlaðs fólks og aldraðra fyrir hádegi á morgun. Mikil slysahætta kunni að myndast í kringum hleðslu bíla með hjólastólum og fólks sem á erfitt með gang.

Gulu vagnarnir á höfuðborgarsvæðinu ættu að ganga samkvæmt áætlun. Strætó fylgist sérstaklega með vögnum sem aka í efri byggðum og leið 23 sem ekur um Álftanes. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV