Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Inn í ESB eða út úr EES

26.12.2012 - 18:52
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslendingar eiga ekki að framselja vald sitt öðrum án þess að geta sjálfir haft áhrif á gang mála. Þetta segir Mörður Árnason alþingismaður og segir að þjóðin eigi að segja upp samningnum að Evrópska efnahagssvæðinu eða ganga í Evrópusambandið.

Minnihluti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis telur að samþykkt laga um losun gróðurhúsalofttegunda feli í sér valdaframsal sem brjóti í bága við stjórnarskrá Íslands. 

Mörður Árnason sem myndaði meirihluta í nefndinni segir sjónarmið minnihlutans þekkt og að þeim hafi verið haldið á lofti síðan Íslendingar fullgiltu EES-samninginn. Sumir hefðu talið þann samning brot á stjórnarskrá en aðrir telji að stjórnarskráin taki ekki með beinum hætti á framsali valds. 

Mörður segir að þessi lög séu alls ekki mesta framsal valds sem átt hafi sér stað á síðustu árum og telur því óhikað að þessi lög geti tekið gildi.
„Já klárlega, ég tel það mikið upp í sig tekið að með þessum lögum sé brotið gegn stjórnarskrá Íslands,“ segir hann. Þó sé rétt að breyta stjórnarskránni til að taka af allan vafa.

Hins vegar eigi Íslendingar ekki að að framselja vald sitt nema með því að hafa áhrif sjálfir á gang mála. „Þannig tel ég í þessu máli að það séu í raun og veru bara tvær leiðir fyrir okkur að fara gagnvart þessum sífelldu tíðindum af EES og stjórnarskránni. Önnur er sú að öðlast áhrif og völd með því að ganga í Evrópusambandið eða þá að hætta þessu og ganga úr EES. Ég mæli ekki með þeirri leið, ég mæli með hinni.“