Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Illugi vill ekki selja RÚV

29.10.2015 - 16:56
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra vill ekki selja RÚV, líkt og ályktað var um á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um síðustu helgi. Hann segir að skoða þurfi hvort hverfa eigi frá ohf.-rekstrarfyrirkomulagi stofnunarinnar.

Skýrsla um starfsemi og rekstur RÚV frá árinu 2007 var kynnt í dag. Hún var unnin af starfshópi sem Illugi skipaði. Eyþór Arnalds, fyrrverandi bæjarfulltrúi í Árborg, fór fyrir starfshópnum. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að rekstur RÚV ohf. frá stofnun félagsins árið 2007 hafi ekki verið sjálfbær. Gjöld hafi verið meiri en tekjur á tímabilinu í heild og hallarekstur verið fjármagnaður með auknu ríkisframlagi, lántökum og frestun á afborgunum lána.

Illugi segir að í ljósi þessa þurfi að horfa til þess hlutverks sem Ríkisútvarpinu sé ætlað. Því sé ætlað mikilvægt menningarhlutverk ásamt því að vera grundvöllur fyrir lýðræðislega umræðu í landinu. Horfa þurfi til þess hlutverks þegar verið sé að meta hvernig rekstur RÚV stendur.

„Ég er auðvitað ánægður með að fá fram þessa skýrslu og þessar upplýsingar. Ég held að þetta sé mjög gagnlegt fyrir okkur,“ segir Illugi. „Mér hefur fundist heldur lakara í umræðu um málefni Ríkisútvarpsins á undanförnum misserum að það hefur staðið deila um reksturinn og menn svona komið úr ólíkum áttum þar. Það hefur vantað sameiginlegan grunn til að ramma umræðuna inn. Nú er þessi skýrsla komin fram. Ég á alveg von á því að stjórnendur og forsvarsmenn Ríkisútvarpsins komi fram með sína skoðun á málinu. Og þegar hún kemur fram held ég að við séum með góðar upplýsingar og góðan grunn fyrir okkur til dæmis á Alþingi til þess að ræða um stöðu mála, en eins fyrir allan almenning sem greiðir fyrir þessa þjónustu.“

Það er óhætt að segja að þessi skýrsla sé nokkuð svört. Eru niðurstöður hennar í takt við það sem þú áttir von á?

„Mér finnst reyndar koma skýrt fram í skýrslunni að núverandi stjórnendur Ríkisútvarpsins og stjórn hafa verið að takast á við þennan rekstrarvanda og greinilega náð árangri. Það er verið að leigja út þetta húsnæði sem ekki er verið að nota. Það er búið að selja byggingaréttinn fyrir umtalsverða fjármuni. Eins hefur náðst fram rekstrarhagræði á undanförnum árum. Það kemur þarna skýrt fram. Á sama tíma tel ég að Ríkisútvarpið hafi verið með áherslubreytingar sem eru mjög jákvæðar. Það er verið að leggja aukna áherslu á innlenda dagskrárgerð, menninguna, efni fyrir börn og ungmenni. Allt þetta sem skiptir svo miklu máli þegar kemur að þeim skyldum sem hvíla á Ríkisútvarpinu. Og menn verða auðvitað að horfa til þess hlutverks sem Ríkisútvarpinu er ætlað. Þessa mikilvæga menningarhlutverks ásamt því að vera grundvöllur fyrir lýðræðislega umræðu í landinu. Menn verða auðvitað að horfa til þess hlutverks þegar verið er að meta hvernig reksturinn stendur.“

Ekki hrifinn af ohf.-rekstrarforminu

Nú ber hópurinn saman rekstur 365 miðla og Ríkisútvarpsins. Finnst þér það sanngjarn samanburður?

„Ég held að það sé ekki spurning um hvort það sé sanngjarnt eða ósanngjarnt. Þetta er væntanlega gert til þess að menn geti glöggvað sig á helstu stærðum. En eins og ég var að segja þá hvíla á Ríkisútvarpinu skyldur umfram aðra fjölmiðla sem Ríkisútvarpinu er gert að standa undir og það er auðvitað til kostnaðarauka. Og menn verða að hafa það í huga þegar samanburður er gerður við aðra fjölmiðla. En eins og ég sagði í upphafi held ég að það sé gagn að öllum upplýsingum. En það þarf auðvitað að lesa myndina heildstætt ef svo má segja og taka með í reikninginn þann kostnað sem á Ríkisútvarpinu hvílir vegna þeirra skyldna sem við höfum sett á þá stofnun.“

Er þessi skýrsla áfellisdómur yfir ohf.-væðingu Ríkisútvarpsins?

„Ég get sagt það að ég hef aldrei verið sérstaklega hrifinn af þessu rekstrarformi, ohf. Ég held að það sé þannig þegar ríkið stendur í rekstri, hvort sem það er rekstur fjölmiðils, útvarps eða öðrum, þá er það bara ríkisrekstur. Þannig að ég held að það sé alveg ágætt fyrir okkur, og tilefni til, að skoða einmitt reynsluna af ohf.-væðingunni, það er að segja þessu rekstrarformi. Og hvort við teljum að við viljum halda áfram með það. En mér finnst kannski stærsta málið í þessu vera að nú þegar við erum búin að leiða fram þessi gögn, og við förum væntanlega í umræðu um þetta á næstu dögum og vikum, þá um leið tel ég vera tækifæri fyrir okkur til þess að huga að framtíðinni og spyrja okkur að því hvernig við sjáum fyrir okkur til dæmis almannaútvarpið og horfum til þess hlutverks sem við ætlum því. Hvernig það muni til dæmis líta út að fimm árum liðnum í ljósi þeirra miklu tæknibreytinga sem við höfum séð á undanförnum misserum.“

Kemur til greina að hverfa frá þessu ohf.-fyrirkomulagi og fara aftur í gamla fyrirkomulagið?

„Ég ætla ekki að taka beina afstöðu til þess hér og nú. En já ég tel að við þurfum að skoða þetta. Við þurfum að leggja mat á það hversu vel þetta fyrirkomulag hefur reynst. Við verðum að velta fyrir okkur til hvers það var sett á og hver markmiðin voru. Og eins og með allt sem fellur að rekstri ríkisins eigum við að vera opin fyrir öllum hugmyndum og vera tilbúin til að skoða með gagnrýnum hug þá reynslu sem er komin. Það eru komin nokkur ár af þessu rekstrarfyrirkomulagi og þá þarf að horfa til sjónarmiða sem voru uppi þegar ohf.-fyrirkomulagið var sett á. Eitt af því sem við vorum til dæmis að líta til á þeim tíma var staða Ríkisútvarpsins á samkeppnismarkaði og reyna að afmarka það með sem skýrustum hætti þannig að það væri ekki um of núningur við aðra einkarekna fjölmiðla á landinu. Eða í það minnsta að það væri rammað inn með sérstökum hætti. Þannig að þá er spurningin hvort menn geti gert það með einhverjum öðrum hætti en því að nota ohf.-fyrirkomulagið.“

Nú var ályktað um það á landsfundi Sjálfstæðisflokksins að selja skyldi Ríkisútvarpið. Hvernig greiddir þú atkvæði í því máli?

„Það var reyndar þannig að í allsherjar- og menntamálanefndinni var tekist á um þetta mál þar sem niðurstaðan varð nú nokkuð önnur. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að selja Ríkisútvarpið. Ég sé ekki alveg hvernig menn ættu að standa að því. En niðurstaðan sem ég síðan studdi var að menn skyldu þá skoða þetta rekstrarform, ohf., og ég held að það sé alveg tímabær umræða og ég held að þessi skýrsla sýni að það er full ástæða til að skoða það. Svo kann að vera að menn komist að þeirri niðurstöðu að það sé óframkvæmanlegt að hafa þetta með öðrum hætti. En þá hafa menn allavega farið í gegnum þá umræðu,“ segir Illugi.