Illþolandi og innihaldslaust líkt og lífsstíllinn

Mynd: NRK / Exit

Illþolandi og innihaldslaust líkt og lífsstíllinn

22.02.2020 - 09:59

Höfundar

„Útrás dregur upp mynd af níhílískum heimi sem stjórnast umfram allt af efnishyggju. Sögupersónur eru fulltrúar hans og er framferði þeirra ætlað að draga fram tómið í tálsýnunum sem heimurinn samanstendur af,“ segir gagnrýnandi Lestarinnar um norsku þættina Exit.

Katrín Guðmundsdóttir skrifar:

Segja má að norska sjónvarpsþáttaserían Útrás (Exit) hafi komið eins og stormsveipur inn á spilara Ríkisútvarpsins nýverið en þættirnir hafa ýmist vakið forvitni, hrifningu, óhug og hreinlega reiði íslenskra áhorfenda, sem margir hverjir viðurkenna þó að geta ekki slitið augun frá skjánum. Þættirnir veita innsýn í heim siðspilltra auðjöfra í Noregi og skírskotar titillinn til tilhneigingu sögupersóna til að leita undankomu í hversdeginum, einna helst með eiturlyfjum, vændiskaupum og hrottalegu ofbeldi. 

Skyggnst inn í lúxussamfélag sem er beint fyrir framan okkur

Þetta er í sjálfu sér vinsælt viðfangsefni, bæði í sjónvarpi og kvikmyndum. Það er að segja stjórnlaus neysla og valdníðsla sterkefnaðra manna, sem að endingu leiðir af sér algert hrun einstaklinganna, hvort sem það er fjárhagslegt, persónulegt eða bæði. Hér nægir að nefna ameríska brjálæðinginn (American Psycho) Patrick Bateman sem kannar takmörk sín á hlutgervingu og misþyrmingu kvenna í skjóli kapítalískrar martraðar. Til að byrja með njótum við þess að góna á fullkomlega skipulagt líf hans og láta okkur dreyma um allsnægtirnar sem hann býr við – en aðeins vegna þess að við vitum að það dugir skammt, enda fáum við mun meiri ánægju út úr því að samsama okkur göllum hans og enn fremur fullvissunni um að peningar geta ekki keypt hamingju. 

Eitt og sér ætti viðfangsefni Útrásar því að vera örugg afþreying og jafnvel ávísun á smá sálræna vellíðan. Virðisaukinn er svo annars vegar falinn í því að sögusviðið er eins nálægt okkur Íslendingum og mögulegt er, bæði landfræðilega og menningarlega, og hins vegar þeirri staðreynd að bæði sögupersónur og atburðirnir sem henda þær eru byggðir á raunverulegum frásögnum manna í fjármálageiranum í Noregi. Hér gefst því einstakt tækifæri til að skyggnast inn í lokað lúxussamfélag, sem á sér engu að síður stað beint fyrir framan nefið á okkur. 

70% atburðarásarinnar alfarið sönn

Og það er nákvæmlega það sem leikstjórinn, Øystein Karlsen, virðist hafa lagt upp með að gera þegar hann fékk frásagnir þessara manna óvænt upp í hendurnar frá framleiðanda norska ríkisútvarpsins. Er það einna helst greinanlegt á því hvernig hann skeytir persónulegum viðtölum við sögupersónur saman við atburðarásina, til þess að auka tilfinningu áhorfenda fyrir raunsæi - rétt eins og horft sé á heimildarmynd. Raunar er heimildargildi sjónvarpsþáttaraðarinnar talsvert, að sögn Karlsens, sem segir að um 70% atburðarrásarinnar séu alfarið sönn. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Norðmenn notast við slíka frásagnarumgjörð í sjónvarpi en landsmenn muna eflaust margir hverjir eftir unglingadramanu Skömm (Skam) frá árunum 2015-2017, sem var einnig byggt á raunverulegum viðtölum, þá við norsk ungmenni. En þótt útfærsla Skammar hafi verið með öðru sniði – og mun framúrstefnulegri ef út í það er farið – má vissulega greina ákveðinn samhljóm með þáttaröðunum og jafnvel fullyrða að með þeim bjóði Norðmenn upp á greinafræðilega nýbreytni í sjónrænni frásagnargerð. Eins konar skjalfest samtímasjónvarp. 

Tómið í tálsýnum

En nákvæmlega hvað eru Karlsen og NRK að skjalfesta? Og af hverju finnst þeim lífsstíll þessara ríku og siðlausu manna eiga upp á borð hjá almenningi? Rétt eins og í tilfelli ameríska brjálæðingsins, dregur Útrás upp mynd af níhílískum heimi sem stjórnast umfram allt af efnishyggju. Sögupersónur eru fulltrúar hans og er framferði þeirra ætlað að draga fram tómið í tálsýnunum sem heimurinn samanstendur af. Ein þeirra, William, gerir ágætlega grein fyrir þessu í einu af téðum viðtölum: 

Fólk um allan heim trúir á alls kyns guði. Trúleysi er vitaskuld bara trúarkerfi. Það sem allir eru sammála um og allir trúa á er að peningar eru raunverulegir. Það er eina sameiginlega trúin. Því verður ekki neitað. Það færir öllum betra líf. Það fjármagnar alla pólitík, öll trúfélög. Fyrir mig sem tilheyri prestastéttinni er ótrúlegt að verða vitni að þessu. Ég lendi í að vera tilbeðinn. Í mínum augum er það fáránlegt. Ég lít á sjálfan mig… sem grísastrák. Bara venjulegan grísastrák.

Þetta er róttæk heimssýn – þar sem peningar eru guð og allt, ekki síst fólkið í kringum okkur, er lítið annað en söluvara. Í raun er þetta í mótsögn við flest þau sammannlegu gildi sem kynslóðir um allan heim hafa alið með sér í árþúsundir, óháð trú og þjóðerni. Svo sem góðvild, umburðarlyndi, heiðarleika, hjálpsemi og fyrirgefningu. Engu að síður eru peningar og tilbeiðsla þeirra sterk öfl í flestum samfélögum og því er ávallt tilefni til að vara við mögulegum afleiðingum þess að hafa það of gott. 

Dópistar, kvenhatarar og ofbeldishrottar

Útrás gefur okkur sýnishorn af því hvernig fer fyrir þeim sem missa sjónar á andlegum verðmætum í ofgnótt veraldlegra gæða. Áhorfendum er sýnt að sportbílar, merkjavara, vínkjallarar og humarveislur bera alls ekki með sér hamingju og þvert á móti er hætt við að slíkar vellystingar dragi úr bæði lífsgleði og lífsþrótti þeirra sem njóta þeirra. Grafið er undan trausti okkar á fjármálageiranum, sem og þeim valdamiklu áhrifamönnum sem njóta velgengni á því sviði með því að afhjúpa þá sem dópista, kvenhatara og ofbeldishrotta, sem komast upp með hvers kyns glæpi undir verndarvæng Mammons. 

Markmiðið er að draga skýra línu á milli peninga og hamingju og um leið fullvissa okkur – sem stöndum á gægjum – að hin raunverulegu lífsgæði eru aðgengileg hverjum sem er, enda eru þau staðsett í hjörtum okkar allra. Og fyrir tilstilli skjalfests samtímasjónvarps tekst Karlsen að miðla þessum fallegu en vissulega einföldu skilaboðum til áhorfenda með ágætum árangri; til að byrja með sitjum við spennt og sjokkeruð yfir annars vegar forréttindum og hins vegar framferði þessa fólks en þegar líður á seríuna verður hún illþolandi og innihaldslaus, rétt eins og lífsstíll þeirra. 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

„Ofbeldi gegn konum gegnumsýrir alla dægurmenningu“

Sjónvarp

Exit, myndlist og þýsk kvikmyndagerð

Innlent

Síminn kvartar undan norsku útrásarvíkingunum í Exit

Sjónvarp

Holskefla kvartana vegna Exit til norska útvarpsráðsins