„Illa farið með góðan kvíða“

Mynd: RÚV / RÚV

„Illa farið með góðan kvíða“

13.11.2019 - 10:36

Höfundar

„Ég stend sjálfan mig að því að vera alltaf að hripa hjá mér, kannski margt sem er svolítið „passive-aggressive“ og margt líka brotið upp úr mínum eigin pirringi,“ segir Leifur Ýmir Eyjólfsson myndlistamaður um nýjustu sýningu sína Handrit III.

Á sýningunni má sjá 102 grafíkverk með kunnuglegum setningum. Handrit III er framhald af fyrri sýningum Leifs Ýmis, þar sem hann vann einnig með áletranir en með annan efnivið – fyrst leirplötur, síðan bókfell og nú pappír. Áletranirnar hafa breiða skírskotun. „Ég reyni að velja setningar sem hafa marglaga merkingu. Það fer kannski eftir því hvernig dagsformið er hvernig maður tekur þessum setningum eða hvernig maður segir þær,“ segir Leifur Ýmir. 

Þeirra á meðal eru: „Illa farið með góðan kvíða“, „við finnum eitthvað út úr þessu“ og „já nei nei“. 

Opinbera sig óvart

Setningarnar má túlka á ýmsa vegu. „Það má lesa þetta með mörgum gleraugum í rauninni, þetta getur verið vissulega kómískt og líka mjög tragískt og allt þar á milli,“ segir Leifur. „Svo er ég líka oft að velta fyrir mér að maður segir stundum eitthvað út í loftið sem hefur kannski mikla, jafnvel heimspekilega merkingu sem maður kannski áttar sig ekki á.“

Aðspurður segir Leifur vísbendingar um persónuleika fólks mega finna í viðbrögðum þeirra við textanum. „Já, ég held að fólk opinberi sig óvart gagnvart verkunum. Það má líka líta á þetta sem kannski portrettmyndir af einhverjum, sem hafa kannski mörg andlit.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Handrit III í Listamönnum galleríi.

Leifur Ýmir opnaði nýverið aðra sýningu í galleríi Úthverfu á Ísafirði, sem nefnist E-ð fjall. Þar fær hann tækifæri til að vinna á stærri skala og gömul skissa varð að veruleika. „Það er svo magnað að vera á Ísafirði, á Vestfjörðum, þetta er kannski svolítið eins og lítill spegill á umhverfið þar.“

Nánari upplýsingar um sýningu Leifs Ýmis í Reykjavík má finna hér
Nánari upplýsingar um sýningu hans á Ísafirði má finna hér.

Tengdar fréttir

Myndlist

Alltaf smá sorglegt að pakka sýningu niður

Myndlist

Eygló Harðardóttir er myndlistarmaður ársins

Myndlist

Orð öðlast líf

Myndlist

Pakka list í list í Ásmundarsal