Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Íhugar uppsögn í fyrsta sinn í 11 ár

Mynd: RÚV / RÚV
Talmeinafræðingur sem hefur unnið á Reykjalundi í 11 ár segir ástandið þar ömurlegt. Heilbrigðisyfirvöld krefja stjórn Reykjalundar svara um fjölda uppsagna og hvernig áframhaldandi starfsemi verði tryggð. Samningur stofnunarinnar við Sjúkratryggingar gæti verið í uppnámi ef nýtt fólk verður ekki ráðið í staðinn fyrir þau sem hafa sagt upp störfum. Yfirlæknir taugasviðs Reykjalundar sagði upp störfum í gær.

Heilbrigðisyfirvöld vilja útskýringar á ummælum

Ástandið á Reykjalundi hefur ekki lagast eftir að nýir stjórnendur tóku til starfa. Læknar hafa sagt upp störfum hver af öðrum og í gærkvöld sagði sjötti læknirinn, yfirlæknir taugasviðs, upp. Á þriðjudagsmorgun sendu embætti landlæknis og Sjúkratryggingar stjórn Reykjalundar formlegt bréf þar sem óskað var eftir svörum um áframhaldandi starfsemi. Meðal annars var spurt hversu margir starfsmenn hafi sagt upp síðan í haust, hversu margir séu eftir, hvort þjónusta hafi skerst og hvernig stjórnin ætli að tryggja stöðugt umhverfi á stofnuninni. Þá er nýr framkvæmdastjóri lækninga, Ólafur Þór Ævarsson, beðinn að útskýra ummæli sem hann lét falla á Bylgjunni í síðustu viku, um að Reykjalundur muni halda áfram þó að allir læknarnir segi upp. Reykjalundur er með samning við Sjúkratryggingar, en ef ekki verður ráðið í stöður læknanna að nýju gæti hann verið í uppnámi.

Vantrú og vonleysi

Þórunn Halldórsdóttir talmeinafræðingur segir andrúmsloftið á vinnustaðnum þrungið spennu, reiði og sorg. 

„Svolítil vantrú líka og vonleysi, hvort það geti verið að þetta verði ástandið.” 

Ríkir traust meðal starfsmannanna til núverandi framkvæmdastjórnar og stjórnar?

Nei, verð því miður að segja að ég held að það traust sé ekki til staðar. Ég sé ekki að þetta mál verði almennilega leyst með þessu fólki sem nú situr í framkvæmdastjórn,” segir Þórunn. 

Fjöldi manns íhugar uppsögn

Á taugasviði Reykjalundar, sem Þórunn starfar á, var haldinn krísufundur í hádeginu. Starfsfólk sendi svo frá sér harðorða ályktun þar sem segir að starfsemin sé komin í uppnám og staðan grafalvarleg. Óttast er að einungis fimm læknar verði eftir áður en langt um líður, en þeir eiga að vera 12 til 14. Þórunn segir fjölda manns íhuga uppsögn. 

„Þegar svona verður, að það fara svona margir starfsmenn og það hriktir í teymunum, þá fara allir að hugsa sinn gang. Það hef ég fundið og er alvarlega að hugsa minn gang í þessu, hvort þetta sé staðurinn sem ég hafi ráðið mig inn á,” segir Þórunn. „Ég er búin að vinna á Reykjalundi í 11 ár og mér hefur aldrei dottið í hug að hætta fyrr en núna.”

Ekki náðist í Herdísi Gunnarsdóttur, forstjóra Reykjalundar, í dag.