Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íhugar flutning vegna hækkunar Veitna

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Eigandi gróðrarstöðvarinnar Lambhaga segist ætla að færa starfsemina annað eða kynda stöðina með plasti og kolum vegna breytinga á gjaldskrá Veitna sem hefur í för með sér 97 prósenta hækkun fyrir stöðina.

Hafberg Þórisson, eigandi Lambhaga, segir í viðtali við Bændablaðið að verð á heitu vatni hækki um 97 prósent um áramótin. Hann hafi hingað til greitt á bilinu 600 til 800 þúsund krónur fyrir heitt vatn á mánuði en um áramót áætlar hann að þurfa að borga 1,4 milljónir króna á mánuði.

Hafberg segir tvennt í stöðunni. Annað hvort að flytja starfsemina annað eða setja upp kyndistöð sem brenni plasti, timburkurli og kolum við háan hita. Kostnaður við að reisa slíka stöð sé á bilinu 15 til 20 milljónir sem sé fljótt að borga sig upp miðað við hækkað orkuverð.

Veitur, sem er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, tilkynntu í byrjun árs um breytingar á gjaldskrá til fyrirtækja, sem felast í því að fyrirtæki njóta afslátta í beinu samræmi við það magn af vatni sem þau nota. Áður hafði gjaldskráin tekið mið að því til hvaða rekstrar notkunin var. Var markmiðið sagt að auka jafnræði á meðal viðskiptavina en Veitur gera ekki ráð fyrir auknum tekjum vegna þessa því í flestum tilfellum áttu áhrifin að vera óveruleg. Hjá sumum gæti komið til hækkunar en hjá öðrum lækkun.

Hafberg segist í viðtalinu nota um 100 þúsund tonn af heitu vatni á ári og samkvæmt því fær Lambhagi 10 prósenta afslátt af almennu verði. Er hækkun Lambhaga því til komin vegna lakari afsláttarkjara.