Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íhugar alvarlega að slíta stjórnmálasambandi

16.07.2019 - 04:14
epa06228081 Philippine President Rodrigo Duterte gestures during his speech in Pasay City, south of Manila, Philippines, 26 September 2017. Duterte attended the Department of Justice's 120th anniversary celebration.  EPA-EFE/MARK R. CRISTINO
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja. Mynd: EPA-EFE - EPA
Rodrigo Duterte forseti Filippseyja íhugar alvarlega að slíta stjórnmálasambandi við Ísland vegna ályktunar, sem fulltrúi Íslands lagði fram í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna á dögunum, um rannsókn á mannréttindaástandi á Filippseyjum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem talsmaður forsetans, Salvador Panelo, sendi frá sér í gærkvöld.

Einkennist af þröngsýni, illgirni og hlutdrægni

„[Duterte] íhugar alvarlega að slíta stjórnmálasambandi við Ísland,“ segir í yfirlýsingu Panelos. „Ályktun Íslendinga, sem samþykkt var [í mannréttindaráðinu] er fáránlega einhliða og einkennist af svívirðilegri þröngsýni, illgirni og hlutdrægni.“ Þá segir hann ályktunina sýna vel hve litla virðingu Vesturlönd beri fyrir rétti Filippseyja sem fullvalda ríkis, til að ákvarða sjálft með hvaða hætti það kjósi að verja borgara sína, segir í frétt AFP. 

Ályktunin mælir fyrir um að mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna efni til rannsóknar á stöðu mannréttindamála á Filippseyjum í samráði við þarlend stjórnvöld. Á sú rannsókn ekki síst að beinast að blóðugu stríði Duterte-stjórnarinnar gegn eiturlyfjum sem hefur sýnt sig í að bitna helst á fíklum og götusölum.

Kerfisbundin og eftirlitslaus dráp

Lögregluyfirvöld á Filippseyjum segja sína menn hafa fellt um 5.300 grunaða síðan herferð stjórnvalda hófst 2016. Mannréttindasamtök, þar á meðal Amnesty International, telja að fjöldi fallinna sé minnst fjórum sinnum hærri og að meirihlutinn hafi verið drepinn án dóms og laga.

Í skýrslu sem Amnesty birti í síðustu viku er fullyrt að drápin séu kerfisbundin og lítið sem ekkert eftirlit sé haft með vígaferlum lögreglunnar sem að mestu fari fram um kvöld og nætur.

Alþjóðaglæpadómstóllinn með aðra rannsókn á sama máli

Rannsóknin sem mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna er uppálagt að gera er ekki sú fyrsta sem beinist að eiturlyfjastríði Duterte-stjórnarinnar. Alþjóðaglæpadómstóllinn í Haag hefur þegar hrint af stað frumrannsókn á fjöldamorðum filippseysku lögreglunnar á fíkniefnaneytendum og -sölum, að undirlagi saksóknara við stríðsglæpadeild dómstólsins.

Filippseyjar sögðu sig úr samstarfinu um Alþjóðaglæpadómstólinn fyrr á þessu ári sökum þessa og viðurkenna ekki lögsögu hans. Utanríkisráðherra Filippseyja ýjaði að því að Filippseyingar myndu líka segja sig úr mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna vegna samþykktar íslensku ályktunarinnar en af því varð þó ekki.

Ísland er ekki með sendiráð á Filippseyjum en sendiherra Íslands í Tókíó sér um samskipti við yfirvöld í Manila. Hér er heldur ekkert filippseyskt sendiráð, þrátt fyrir að um 1.900 Filippseyingar búi hér og starfi, heldur sér sendiráð Filippseyja í Osló um samskipti við Ísland.