Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íhugaði að segja af sér vegna Árskóga

Sigríður Snæbjörnsdóttir, varaformaður félags eldri borgara.
 Mynd: Eggert Þór Jónsson
Sigríður Snæbjörnsdóttir, varaformaður Félags eldri borgara í Reykjavík, hefur íhugað að segja af sér vegna Árskógarmálsins og segir ekki sjálfgefið að stjórnin sitji áfram. Kaupendum íbúða í fjölbýlishúsinu á Árskógum hefur verið gert sáttatilboð. Tilboðið felur í sér að hver kaupandi greiði 37 prósent minna en áður hafði verið gerð krafa um.

Miklar deilur hafa verið um íbúðir eldri borgara við Árskóga. Á afhendingardegi var tilkynnt að kaupendur þyrftu að greiða mun hærra verð en samið hafði verið um eða hætta við kaupin vegna framúrkeyrslu við framkvæmdir. Upphæðin var í sumum tilvikum margar milljónir. Einn eða tveir hafa hætt við og tvær aðfarabreiðnir verða teknar fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrramálið.

Félagið lagði í dag fram sáttatillögu þar sem samið hefur verið um afslátt af kostnaðarverði. Þá leggur félagið sjálft til fjármuni til sáttarinnar. Samtals eru um 150 milljónir sem dreifast jafnt á kaupendur í formi afsláttar. 

„Þeir sem samþykkja ekki þetta tilboð, hvað verður um þá? Við höfum ekki nakvæmar niðurstöður um hvernig við munum meðhöndla það. Þeir hafa möguleika a að skila íbúðunum og fa endurgreitt það sem þeir hafa þegar greitt og síðan eru náttúrlega bara dómsmál ef einhver kýs svo að gera en við vonum svo sannarlega að svo verði ekki,“ segir Sigríður.

„Við vonum auðvitað að ekki komi til gjaldþrots en við erum alveg meðvituð um að það gæti orðið niðurstaðan ef kaupendur sætta sig ekki við þetta.“

Formaður félagsins sagði um helgina að bygginganefndin hafi einfaldlega misreiknað verðið. Stjórnin ætlar að láta rannsaka hvernig mistökin áttu sér stað. Bygginganefndin ætlar að stíga til hliðar, en stjórnin hefur ekki tekið ákvörðun um slíkt.

„Það hefur ekki komið formlega til tals en svo ég tali fyrir sjálfa mig þá hef ég sannarlega íhugað það.“

- Finnst þér eðlilegt að stjórnin sitji áfram?

„Ekkert endilega. Ég er ekkert sátt við stöðuna. Þetta kom jafn illa aftan að okkur og kaupendunum.“