Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íhaldsflokknum spáð meirihluta en spenna samt

Mynd: EPA-EFE / EPA
Bretar ganga til þingkosninga í dag, í annað skiptið á tveimur árum og hið þriðja á síðustu fimm árum. Kannanir benda til sigurs Íhaldsflokksins, en dregið hefur saman með stóru flokkunum tveimur svo töluverð spenna ríkir um úrslitin. Kosningarnar í dag eru þær fyrstu í nær heila öld sem haldnar eru í desember.

Í raun 650 kosningar

Kosið er í 650 einmenningskjördæmum. Skoðanakannanir benda til þess að Íhaldsflokkurinn fái flest atkvæði og eigi góða möguleika á að fá meirihluta þingsæta og Boris Johnson verði áfram forsætisráðherra. Fréttaskýrendur segja það þó alls ekki víst.

Íhaldsmenn verða að bæta við sig minnst átta þingsætum

Íhaldsmenn þurfa að bæta við sig að minnsta kosti átta þingsætum frá því síðast var kosið 2017. Takist það ekki eru allar líkur á því að Johnson þurfi að yfirgefa embættisbústað forsætisráðherra að Downing-stræti 10 í Lundúnum því hann fær ólíklega aðra flokka til liðs við sig. Jeremy Corbyn og Verkamannaflokkurinn gæti hins vega mögulega fengið SNP, Skoska þjóðarflokkinn, og/eða Frjálslynda demókrata til liðs við sig ef Íhaldsmenn fá ekki meirihluta.

Aðalmál kosningabaráttunnar hafa verið Brexit og NHS

Íhaldsmenn hafa hamrað á því að Boris Johnson ætli sér að „klára“ Brexit. „Get Brexit done“ er slagorð flokksins. Á síðari stigum hefur vægi Brexit minnkað í umræðunni og hún meira farið að snúast um almenn mál, ekki síst heilbrigðisþjónustuna, NHS, National Health Service, sem er heilög kýr í augum flestra Breta.  

Milljón fleiri hafa skráð sig á kjörskrá

Ein milljón kjósenda sem ekki voru á kjörskrá 2017 hefur skráð sig fyrir þessar kosningar. Þar skilur með Íslendingum og Bretum að þar halda yfirvöld ekki kjörskrá, heldur verða kjósendur að skrá sig sérstaklega. Meirihluti nýskráðra er ungt fólk og kannanir benda til þess að Verkamannaflokkurinn njóti hlutfallslega meiri stuðnings í þeim hópi en meðal kjósenda almennt. Skili þessir nýju kjósendur sér á kjörstað má búast við að Verkamannaflokkurinn komi betur út en kannanir spá.

Útgönguspá kl. 22, endanleg úrslit í fyrramálið

Breskar sjónvarpsstöðvar birta útgönguspá klukkan tíu og hún ætti að gefa nokkuð góða vísbendingu um úrslit. Greint verður frá útgönguspánni í fréttum klukkan tíu í útvarpi og sjónvarpi. Um eittleytið í nótt er gert ráð fyrir að úrslit fari að berast úr lykilkjördæmum þar sem munur er lítill.

Vilja rjúfa „rauða múrinn“?

Þar skiptir miklu hvort Íhaldsflokknum hefur tekist að rjúfa skörð í rauða múrinn svokallaða í Norður-Englandi og Wales en þar hefur Verkamannaflokkurinn verið ráðandi svo lengi sem elstu menn muna. Kjósendur í þessum kjördæmum vildu yfirgefa Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2016. Nú er spurning hvort þeir sporðrenni áratuga andúð á Íhaldsflokknum til að tryggja að Brexit verði að veruleika.

Leiðtogar njóta lítils trausts 

Leiðtogar stóru flokkanna, Boris Johnson og Jeremy Corbyn, njóta ekki almenns trausts breskra kjósenda þó að báðir eigi sér hóp gallharðra stuðningsmanna. Svo eitthvað sé nefnt sem rætt hefur verið í kosningabaráttunni þykir Johnson umgangast staðreyndir og sannleika af léttuð og Corbyn er legið á hálsi að hafa ekki tekið á gyðingaandúð innan Verkamannaflokksins af festu. Þá þykir mönnum lítill mannsbragur á því að Johnson kom sér undan viðtölum við spyrjendur sem eru þekktir fyrir einurð og ágengar spurningar. 

Forsíða breska tímaritsins The Economist um kosningar í desember 2019
Forsíða The Economist 7. desember 2019

Lýsa frati á bæði Corbyn og Johnson

Tímaritið The Economist segir stefnu bæði Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins svo slæma að það styður Frjálslynda demókrata. Það segir hvorugan verðugan leiðtoga Breta. Economist líkir kosningunum við martröð.

On Friday the 13th, unlucky Britons will wake to find one of these horrors in charge. (Að morgni föstudagsins 13. vakna Bretar með annan hvorn hryllinginn við stjórnvölinn.)

Þá vakti athygli að tímaritið the New Statesman, sem stundum er lýst sem biblíu vinstrimanna, segir Corbyn óhæfan sem forsætisráðherra. Þeir eru því margir sem telja að kjósendur velji þann sem þeir telja illskásta kostinn.

Búist við auknu fylgi SNP í Skotlandi

Verkamannaflokkurinn gat lengið vel gengið að stuðningi Skota sem vísum, en það hefur breyst á undanförnum árum og nú ber Skoski þjóðarflokkurinn, SNP, höfuð og herðar yfir aðra flokka. Flokkurinn tapaði engu að síður þingsætum til Íhaldsflokksins 2017 og var það einkum þakkað leiðtoga flokksins í Skotlandi, Ruth Davidson. Íhaldsmenn fengu fleiri þingsæti en Verkamannaflokkurinn, en margir búast við að þeir tapi þessum sætum að nýju. Davidson er hætt stjórnmálaþátttöku og þykir þar skarð fyrir skildi.

Brexit og sjálfstæði aðalmálin í Skotlandi

Skotar höfnuðu sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2014 en kannanir nú benda til þess að sjálfstæðissinnum hafi fjölgað síðan þá og SNP krefst nú annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Meirihluti Skota vill vera áfram í ESB og er andvígur Brexit. Skotar kjósa 59 fulltrúa á þingið í Westminster og lítill munur var í mörgum kjördæmum í síðustu kosningum. 

Óhefðbundið stjórnmál á Norður-Írlandi.

Norður-Írar eiga 18 sæti á þinginu í Westminster, þar eru öll stjórnmál lituð af skiptingu Norður-Íra í fylkingar mótmælenda og kaþólikka eða sambandssinna og þjóðernissinna, sem vilja sameinast Írska lýðveldinu. Á Norður-Írlandi er gríðarleg óánægja með heilbrigðiskerfið og þar getur enginn tekið mikilsverðar ákvarðanir sem bíða; engin stjórn hefur verið á Norður-Írlandi í tvö ár og embættismenn hafa ekki völd til að taka ákvarðanir.

The Orange and the Green

Litur sambandssinna á Norður-Írlandi er appelsínugulur og þjóðernissinna grænn. Stærsti flokkur Norður-Írlands með tíu sæti er Lýðræðislegi sambandsflokkurinn, Democratic Unionist Party, DUP. Sá flokkur studdi stjórn Íhaldsflokksins í Lundúnum en er andvígur samkomulagi sem stjórn Johnsons gerði við ESB um Brexit. Hinn stóri flokkurinn, Sinn Fein, er flokkur þjóðernissinna. Sinn Fein fékk sjö kjörna 2017, en þau tóku ekki sæti á þinginu í Westminster frekar en aðrir fulltrúar Sinn Fein sem kjörnir hafa verið áður. 

Wales er vígi Verkamannaflokksins

Í Wales hefur Verkamannaflokkurinn borið höfuð og herðar yfir aðra flokka í meira en öld. Árið 2017 fékk flokkurinn 28 af 40 þingsætum Wales. En Verkamannaflokkurinn á nú í varnarbaráttu vegna Brexit, sem meirihluti Wales-verja studdi. Íhaldsmenn vonast til að vinna sæti af Verkamannaflokknum. Þjóðernissinnar í Plyd Cymru unnu fjögur sæti í kosningunum 2017 og vonast til að halda þeim. 

Kosningavaka BBC á RÚV 2

Kosningavaka breska ríkisútvarpsins, BBC, verður send út á RÚV 2 og hefst útsending klukkan 21:50.