Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Icelandair vill innanlands- og alþjóðaflug á sama velli

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Forsvarsmenn Icelandair Group telja að best færi á því að rekstur innanlandsflugs og alþjóðaflugs væri á sama flugvelli á suðvesturhorninu. Þá gagnrýnir félagið hversu langan tíma hefur tekið að kanna valkosti fyrir framtíð flugs á Íslandi.

Þetta kemur fram í áherslum Icelandair Group sem birtar eru í viðauka í skýrslu um flugvallakosti á suðvesturhorni landsins sem kynnt var fyrir helgi. Samkvæmt skýrslunni er ekki talið fýsilegt að færa innanlandsflug til Keflavíkur, en nauðsynlegt er talið að hafa tvo flugvelli á suðvesturhorni landsins. 

Í skýrslunni er lagt til að haldið verði áfram að byggja upp millilandaflug í Keflavík. Nýr millilandaflugvöllur í Hvassahrauni, sem tæki á annan áratug að byggja upp, er áætlaður um 300 milljarðar króna. Uppbygging Keflavíkurflugvallar er áætlaður um 160 milljarðar.

Áætlað er að uppbygging Reykjavíkurflugvallar sem alhliða innanlands- og varaflugvallar í Vatnsmýri kosti um 25 milljarða. Nýr innanlandsflugvöllur í Hvassahrauni myndi kosta rúma 40 milljarða. Ríkið og Reykjavíkurborg munu hvort um sig leggja til 100 milljónir króna til að rannsaka veður- og flugskilyrði í Hvassahrauni á næstu tveimur árum, með það að markmiði að þar verði reistur nýr innanlandsflugvöllur.

Mynd með færslu
 Mynd:
Farþegar í Leifsstöð

Kostnaðarsamt að reka tvo flugvelli

Í áherslum Icelandair Group segir að það sé „kostnaðarsamt að reka innviði fyrir flug á tveimur stöðum þegar ekki eru fleiri notendur en raun ber vitni, auk þess að mikil tækifæri geta skapast með því að hafa innanlands- og alþjóðaflug á sama flugvelli.“

Þar megi nefna betri dreifingu ferðamanna um landið, fjölgun ferðamanna í innanlandsflugi og „tækifæri til að gera flugvöll á Íslandi að miðstöð vestnorrænna flugtenginga.“

Þá segir félagið að „alltof langur tími of margra hópa og nefnda hefur farið í að kanna valkosti til framtíðar fyrir alþjóðaflugvöll og innanlandsflugvöll á Íslandi.“ Tvær síðustu skýrslur um málið hafi báðar dregið fram möguleikann á Hvassahrauni fyrir innanlandsflug, auk þess sem skoða ætti þann kost að færa alþjóðaflug þangað líka. Lengi hafi legið fyrir að gera þyrfti frekari rannsóknir á veðuraðstæðum við Hvassahraun svo hægt sé að fullkanna valkostinn.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kanna á flugskilyrði í Hvassahrauni

Má ekki verða enn ein skýrslan sem skilar engu

Samhliða kynningu skýrslunnar undirrituðu ríki og borg samkomulag um rannsóknir í Hvassahrauni með það að markmiði að reisa þar innanlandsflugvöll. Hins vegar er ekki slegið út af borðinu að hann muni einnig verða að alþjóðaflugvelli.

„Við höfum séð að Keflavíkurflugvöllur, með sína uppbyggingu, ráði vel við þessar 19 milljónir farþega [sem miðað var við í skýrslunni, innsk. blm.]. En verði hér stefnt í 30-35 milljónir farþega eftir 30-40 ár þá þurfum við kannski innan 10 ára að taka ákvörðun um hvað gerist svo. Þá kæmi Hvassahraun vel til greina,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, eftir að skýrslan var kynnt.

Sigurður Ingi sagði einnig að niðurstöður skýrslunnar yrðu til hliðsjónar varðandi framtíð flugs á suðvesturhorninu. Icelandair Group leggur áherslu á það.

„Þetta má ekki verða enn ein skýrslan sem engu skilar um þennan mikilvæga málaflokk,“ segir í áherslum félagsins viðauka skýrslunnar.