Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Icelandair stefnir á óbreytta sumaráætlun til Ítalíu

03.03.2020 - 21:38
Mynd með færslu
 Mynd: Ásgeir Tómasson - RÚV
Icelandair hefur ekki gert neinar breytingar á sumaráætlun sinni, sem gerir ráð fyrir beinu flugi til Mílanó á Ítalíu. Tvær áhafnir Icelandair eru nú í sóttkví.

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að fyrsta beina flugið til Mílanó sé áætlað þann 16. maí. Engar breytingar hafa verið gerðar á þeirri áætlun, en flest smit COVID-19 veirunnar í Evrópu eru rakin til Ítalíu sem skilgreind er sem hættusvæði af almannavörnum vegna mikillar smithættu.

Icelandair hefur heldur ekki fyrirhugað breytingar á beinu flugi sínu til Seattle í Bandaríkjunum, en fimm manns hafa látist í borginni vegna veirunnar. Ásdís segir að þar sem heilbrigðisyfirvöld hafi ekki skilgreint svæðið sem áhættusvæði séu engar breytingar á áætlun fyrirhugaðar.

Tvær áhafnir Icelandair eru nú í sóttkví, en það eru áhafnir véla sem komu frá Verona á Ítalíu og München í Þýskalandi á laugardag. Öll fjórtán staðfestu smitin hérlendis eru frá farþegum sem voru um borð í þeim vélum. Von er á vél Icelandair frá Verona á laugardag, með hóp á vegum ferðaskrifstofu sem fór út síðasta laugardag.

Ekki eru fleiri ferðir áætlaðar til Ítalíu með Icelandair þar til áætlunarflugið til Mílanó hefst í maí.