Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Icelandair skoðar stöðuna eftir ferðabann Trumps

12.03.2020 - 07:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Icelandair er nú að fara yfir stöðuna sem upp er komin eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti um algjört bann við ferðum frá Evrópu til Bandaríkjanna í 30 daga frá og með miðnætti á föstudag vegna COVID-19 veirunnar.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í samtali við fréttastofu að fyrirtækið sé nú að fara yfir málin í ljósi þessara nýju upplýsinga. Ekki sé hægt að tjá sig frekar um viðbrögð fyrirtækisins fyrr en líður á morguninn.

Á vef heimavarnarráðuneytis Bandaríkjanna segir að bannið eigi við um Schengen-ríki. Bannið á ekki við um þá sem eru með lögheimili í Bandaríkjunum eða ættingja bandarískra ríkisborgara. Bannið á hins vegar við um alla aðra sem hafa verið í einhverju Schengen-landanna fjórtán dögum fyrir ferð sína til Bandaríkjanna.

Schengen-ríkin eru: Austurríki, Belgía, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ísland, Ítalía, Lettland, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Malta, Noregur, Pólland, Portúgal, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Sviss, Svíþjóð, Tékkland, Ungverjaland og Þýskaland.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV