Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Icelandair segir upp 240 og 92% í skert starfshlutfall

23.03.2020 - 09:39
epa02747627 An SAS Airbus 330 aircraft takes off behind Iceland Airs stranded Boeing 757 aircraft named after the volcano Eyjafjallajokull parked at a remote stand at Arlanda airport north of Stockholm, Sweden, 23 May 2011. The Eyjafjallajokull aircraft is parked at Arlanda, not able to return home, since the ash cloud from the volcano Grimsvotn closed the airports on Iceland 22 May.  EPA/Johan Nilsson SWEDEN OUT
 Mynd: EPA - Scanpix Sweden
Um 240 starfsmönnum Icelandair verður sagt upp störfum og 92% starfsmanna fyrirtækisins munu fara í skert starfshlutfall tímabundið. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Icelandair sendi fjölmiðlum í morgun.

Hópurinn fellur undir úrræði ríkisstjórnarinnar um mótframlag vegna skerts starfshlutfalls. Icelandair tekur fram að þessi leið hafi betri áhrif á sjóðstreymi félagsins en uppsagnir þar sem uppsagnarfrestur er greiddur.

Heildarfjöldi stöðugilda hjá Icelandair Group var að meðaltali 4.715 á árinu 2019. Icelandair segir að ákveðið hafi verið að þeir starfsmenn sem verða áfram í fullu starfi lækka um 20% í launum. Framkvæmdastjórar lækka um 25% og laun forstjóra og stjórnar lækka um 30%.

Icelandair segir í tilkynningu að félagið hafi að undanförnu leitað allra leiða til að draga úr útstreymi fjármagns, svo sem með því að endursemja við birgja og fjármögnunaraðila. Öllum þessum aðgerðum er ætlað að auka sveigjanleika félagsins til að takast á við núverandi aðstæður, lækka rekstrarkostnað og bæta sjóðsstreymi. Fjárhagsleg áhrif útbreiðslu COVID-19 veirunnar séu enn óljós.